137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að biðja hv. þingmann um að hlusta grannt eftir hvað menn segja þegar þeir svara. Ég sagði að ég mundi ekki tengja þessi mál eða hefði ekki tengt þessi mál með þeim hætti sem þingmaðurinn gerði. Það þýðir ekki að það séu ekki snertifletir á þessum málum. Við erum að sjálfsögðu í viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-málin. Evrópusambandið hefur komið að því máli en hér er auðvitað fyrst og fremst um það að ræða að leysa málin gagnvart þessum ríkjum og ég tel mikilvægt að við gerum það. Evrópusambandsmálið er þannig að ákveði Alþingi að fara skuli í viðræður tekur ferlið sem fer af stað alllangan tíma og svo taka menn afstöðu til þess þegar þar að kemur.

Ég tel ekki að það eigi að tengja þetta saman með þeim hætti sem þingmaðurinn gefur í skyn þegar hann segir að alls ekki megi leggja inn umsókn um Evrópusambandið núna af því að við eigum í þessari Icesave-deilu. Ef það er svo þá mundi ég gjarnan vilja fá það fram frá forustu Sjálfstæðisflokksins hvort það að við erum í deilu um Icesave-reikningana núna veldur því að hún vill ekki styðja þetta mál úr utanríkismálanefnd.