137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:34]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er bitamunur en ekki fjár vegna þess að í því áliti sem hv. þingmaður vísar til er líka talað um óvissuna og ekki lagt heildstætt mat á þetta og þar — ef við ætlum að fara út í það — er talað um hagræðingu á móti, sem ég benti í ræðu minni á að þegar hefði verið boðuð vegna þeirrar stöðu sem ríkisfjármálin eru í, þannig að þetta er ekkert svar. Ég spyr þingmanninn: Hefur verið tekin ákvörðun um nálgunina, ódýrustu eða dýrustu leiðina? Og ég spyr: Finnst þingmanninum að Alþingi sé meðvitað um þúsund milljóna kostnað og hvort það sé raunhæft eða ekki raunhæft miðað við þá umfjöllun sem þessi kostnaðarmöt, eða hvernig sem maður orðar það í fleirtölu, hafa fengið í nefndinni — sem mér skilst að sé engin?