137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður segir að þessar tímasetningar séu bitamunur en ekki fjár. Það kann vel að vera en ég treysti því að þingmaðurinn vilji samt hafa það sem sannara reynist og vilji ekki draga upp þá mynd að kostnaðarmatið hafi ekki verið á borði þingmanna í utanríkismálanefnd.

Það er rétt að í kostnaðarmati utanríkisráðuneytisins er líka óvissa en það eru hlutir sem menn höfðu allnokkra daga — viku, áður en málið var tekið út úr nefndinni — til þess að gera athugasemdir við, spyrja frekar út í, en það var ekki gert.

Varðandi nálgunina hvað þetta snertir þá er þetta hluti af uppbyggingu viðræðuferlisins sem stjórnvöld í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila verða nákvæmlega að leggja fyrir sig. (Gripið fram í.) Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það á þessu stigi málsins vegna þess að þetta er hluti af þeirri uppbyggingu viðræðnanna sem stjórnvöld í samráði við utanríkismálanefnd Alþingis og hagsmunaaðila munu taka ákvörðun um.