137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:49]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Fögnuður minn yfir þeirri þingsályktunartillögu sem nú er til umræðu á Alþingi er mikill sem og þeirra fjölmörgu Evrópusambandssinna sem lengi hafa barist fyrir því að aðildarviðræður við Evrópusambandið kæmust á dagskrá hér á landi. Ég vil þakka hv. utanríkismálanefnd fyrir vandaða og málefnalega vinnu í sambandi við þessa þingsályktunartillögu og meiri hluta nefndarinnar fyrir ítarlegt og upplýsandi nefndarálit.

Við sem sitjum nú á Alþingi njótum þeirra forréttinda að fá að taka þátt í að endurreisa íslenskt fjármálakerfi og efnahag og fáum þannig tækifæri til að móta íslenskt samfélag til framtíðar. Það er mikið ábyrgðarstarf sem krefst þess að við hugsum ekki aðeins um skammtímahagsmuni heldur leitum langtímalausna á þeim gríðarlegu vandamálum sem blasa við okkur í dag. Skammtímalausnir geta reynst dýrkeyptar til lengri tíma litið þó þær kunni að virðast góðar og jafnvel nauðsynlegar í hita leiksins.

Eftir hrun íslenska fjármálakerfisins var sú stefna mörkuð að endurreisnin færi fram í gegnum samstarf við alþjóðasamfélagið. Við erum stolt af landi og þjóð og teljum okkur eiga fullt erindi við borðið þar sem ráðum er ráðið í milliríkjasamstarfi. Við erum vissulega lítil en við höfum sérþekkingu og reynslu á mikilvægum sviðum svo sem eins og í sjávarútvegi og orkumálum. Það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur að njóta ávinnings af alþjóðasamstarfi enda hefur lítil þjóð eins og okkar ekki tök á sömu sérhæfingu á ýmsum sviðum og stærri þjóðir.

Frú forseti. Ég tel rétt áður en lengra er haldið að gera grein fyrir afstöðu minni til aðildar Íslands að Evrópusambandinu. Það er auðvitað engum blöðum um það að fletta að ég er fylgjandi slíkri aðild og hef verið um árabil því ég tel að Evrópusambandið sé eftirsóknarverður samstarfsvettvangur fyrir Íslendinga og að hagsmunum okkar sé betur borgið innan þess en utan. Evrópusambandið er í eðli sínu friðarbandalag og varð til eftir hryllilegar styrjaldir í Evrópu. Kol- og stálbandalagið var sett á laggirnar til að efnahagslegum og pólitískum hagsmunum í tengslum við þessa mikilvægu framleiðslu stofnríkjanna væri fundinn farvegur í sameiginlegum stofnunum. Evrópusambandið hefur síðan þróast og er nú samstarfsvettvangur 27 ríkja sem hafa tekið þá ákvörðun að sum viðfangsefni þessara ríkja séu þess eðlis að hagsmunum þeirra sé betur borgið með sameiginlegu átaki heldur en takast á við þau hvert í sínu lagi. Það má því segja að ESB auðveldi þjóðum að vera þjóðríki og þau geti einbeitt sér að atvinnumálum, velferðarmálum og menningarmálum en efnahags- og pólitísk hagsmunamál gagnvart öðrum ríkjum séu meðhöndluð á friðsamlegum samstarfsvettvangi Evrópuríkja.

Í umræðunni um Evrópusambandið er oft látið að því liggja að ef Ísland verði aðili að Evrópusambandinu yrðum við kúguð af stærri og sterkari þjóðum og stundum er jafnvel átakalínunni stillt upp sem átökum milli Íslands og Evrópusambandsins í heild sinni. Ég hafna þessari skoðun alfarið og vil benda á að innan sambandsins eru 27 þjóðir sem ráða ráðum sínum og niðurstaðan á að þjóna hagsmunum sem flestra. Nú ætla ég ekki að leiða að því líkur að Evrópusambandið sé einhvers konar hálsaskógur þar sem bangsapabbi talar mildilega við deiluaðila og býður upp á fallega og einfalda lausn, ónei. En hagsmunabandalög byggja á því að allir fái vel við unað. Það er eins og í öðru samstarfi, nú eða hjónabandi, þú gengur til samstarfsins því þú telur þig fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Við í Samfylkingunni leggjum mikla áherslu á aðildarviðræður við Evrópusambandið. Við erum, eins og allir vita, Evrópuflokkur en það er ekki einvörðungu hugsjónin um að vera hluti af hinu evrópska samfélagi sem ræður heldur þær aðstæður sem nú eru uppi á Íslandi. Við teljum það efnahagslega nauðsyn að sækja um aðild að Evrópusambandinu og þar með hinu evrópska myntsamstarfi. Við teljum liggja á aðildarviðræðum því hagsmunir íslenskra fjölskyldna og atvinnulífs eru miklir í því að við getum tekið upp stöðugan gjaldmiðil sem ekki sveiflast eins og klukkukólfur, sem losar okkur við verðtrygginguna og sem auðveldar íslenskum fyrirtækjum viðskipti við útlönd og fjármagnsöflun.

Frú forseti. Það er ekki aðeins Samfylkingin sem leggur áherslu á Evrópusambandið. Flest samtök innan Samtaka atvinnulífsins eru sammála okkur og stærstu samtök launafólks á Íslandi, Alþýðusamband Íslands með yfir 100 þúsund félagsmenn eru fylgjandi Evrópusambandsaðild því þau telja launafólk njóta betri lífskjara með stöðugri gjaldmiðli. Auk þess er fjöldi fólks í öllum flokkum hlynntur Evrópusambandsaðild af ýmsum ástæðum.

Öllum er ljóst að upptaka evru tekur tíma en langtímaverkefni sem krefst þolinmæði og aga þarf að hefja. Það þýðir ekki að sitja hjá aðgerðalaus og segja að ferlið sé svo langt að ekki sé hægt að hefja það. Miðað við núverandi stöðu er líklegt að aðild að myntsamstarfinu geti í fyrsta lagi orðið að veruleika eftir fjögur ár. Mikil einföldun er hins vegar að túlka þetta sem svo að Ísland njóti ekki nokkurs hags af myntsamstarfinu fyrr en fengin er full aðild. Reynsla annarra umsóknarþjóða sýnir að þessu er einmitt öfugt farið. Umsókn um aðild að ESB er stefnumarkandi ákvörðun í efnahags- og peningamálum og eftir henni er tekið. Reynslan sýnir að gengi og vextir verða fyrir sterkum áhrifum þegar í umsóknarferlinu og enn frekar eftir að aðild hefur fengist. Gengið verður stöðugra og vextir umsóknarlanda fara að leita í átt að því vaxtastigi sem ríkir á evrusvæðinu. Þetta stafar meðal annars af þeim stuðningi sem fólginn er í ERM II kerfinu en stjórnast einnig af væntingum um endanlega aðild að myntsamstarfinu.

Frú forseti. Það má ljóst vera að ég er mjög hlynnt Evrópusambandsaðild og vona svo sannarlega að Alþingi samþykki þingsályktunartillögu hæstv. utanríkisráðherra. Hitt er annað svo mál að ef svo fer að hún verði samþykkt er aðildarferlið rétt að hefjast og óvíst hver niðurstaðan verður. Ég er mjög vongóð um að með reynslumiklu og harðsnúnu samningsliði sem fer fram af stolti, víðsýni og stefnufestu fyrir Íslands hönd takist okkur að ná fram samningum sem verða íslensku þjóðinni til framdráttar. Sá samningur sem verður niðurstaða aðildarviðræðnanna verður síðan lagður í dóm þjóðarinnar sem mun vega hann og meta. Sá samningur verður síðan samþykktur telji þjóðin hann þjóna hagsmunum sínum en felldur ef við teljum hann ekki líklegan til að efla lífskjör okkar jafnt í efnahagslegu sem menningarlegu tilliti. Við í Samfylkingunni lítum á það sem skyldu okkar að fylgja málinu fast eftir því við teljum að aðild að ESB sé eitt brýnasta hagsmunamál íslensku þjóðarinnar og mikilvægt til að skapa tiltrú landsmanna á bjarta framtíð íslensks samfélags.