137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við erum hér að ræða aðildarbeiðni að Evrópusambandinu. Þetta er mjög stórt mál og sennilega það stærsta sem Alþingi hefur rætt mjög lengi. Það má eiginlega segja að ef við lítum á sögu Íslands — ég er gjarn á að líta dálítið til langs tíma. Ég er ekki að redda næstu viku þannig séð — og ef ég lít á sögu Íslands má segja að 1262 var Gamli sáttmáli samþykktur og þá gengust Íslendingar undir Noregskonung og síðan frá honum yfir til Danakonungs og varð úr því um 600 ára tímabil stöðnunar og mikillar fátæktar á Íslandi og er það hörmungarsaga öllsömul. Landsmönnum fækkaði. Þetta voru um 90 þúsund manns við lok þjóðveldistímans og er talið að þeir hafi farið niður í 70 þúsund þegar fæst var og fækkaði sem sagt. Það var ekki vegna þess að fólk flytti úr landi heldur vegna þess að fólk dó úr ófeiti eða hvað það var kallað.

Þetta var hörmungartími og þegar Danir réðu hér ríkjum fór margt á versta veg. Ég held að það hafi ekki verið vegna þess að Danir séu eitthvað sérstaklega illviljaðir menn eða illviljaðir nýlenduherrar. Ég held að þeir hafi frekar verið góðir nýlenduherrar. En það sem skorti á var áhugi þeirra og skilningur á vandamálum Íslands og þekking á því hvað var að gerast á Íslandi. Það vantaði gjörsamlega og það var enginn áhugi fyrir því.

Við fengum fullveldi 1918 og síðan sjálfstæði 1944 í miðri heimsstyrjöldinni og má kannski segja að við höfum notað það tækifæri. Dönum fannst það sumum ekki vera beint heiðarlegt. En þannig var það nú. Núna árið 2009 erum við að ræða það að ganga inn í Evrópusambandið og afsala okkur hluta af fullveldinu og hluta af sjálfstæðinu. Ég held að ekki sé um það deilt. Menn telja og vita að það þarf að breyta stjórnarskránni til þess að við megum afsala okkur fullveldi og sjálfstæði. Þetta ræðum við í dag.

Ef maður lítur á þessa sögu frá því að Ísland byggðist og til dagsins í dag má segja að frá 1262 hafi verið mikil stöðnun og fátækt. Margir telja að Íslendingar hafi verið ein fátækasta þjóð Evrópu þegar fullveldið fékkst 1918. En núna er Ísland með ríkustu þjóðum heims, þar af leiðandi Evrópu, og það jafnvel eftir hrun. Ég dreg því þá ályktun að það að við förum með eigin mál og eigið sjálfstæði og getum tekið á okkar vandamálum á okkar eigin forsendum sé ástæðan fyrir því hversu vel hefur gengið.

Aðrir segja að þetta skipti ekkert stóru máli vegna þess að allt sé svo breytt, það sé orðin einhver ógurlega mikil alþjóðavæðing og elskulegheit á milli ríkja og manna og fyrirtækja að þetta sé allt saman breytt og tímar eins og þegar Danir réðu ríkjum á Íslandi komi ekki aftur. Ég get á margan hátt tekið undir það. Ég held að bara internetið, sími og annað slíkt geri það að verkum að slíkir tímar koma ekki aftur, þ.e. þegar póstskipin komu á vorin kannski, stundum ekki. Þetta er því kannski ekki sambærilegt. En það sem er sambærilegt er að valdið fer frá Íslandi, ákvörðunarvaldið um ákveðna hluti fer frá Íslandi til Brussel og þar verða teknar ákvarðanir í stærri málum og til dæmis varðandi sjávarútveg, orkumál og annað slíkt.

Ef ég lít á sögu Evrópusambandsins þá er hún miklu styttri. Það má eiginlega segja að hún hafi byrjað fyrir 58 árum, 1951, með stofnun Kola- og stálbandalagsins. Síðan mynduðu sex stofnríki — það voru Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg, Holland og Þýskaland — gerðu sem sagt með sér Parísarsáttmálann. Í rauninni var hugsunin og hugsjónin á bak við það minningin um stríðið og það að reyna að koma í veg fyrir styrjaldir í framtíðinni. Það má eiginlega segja að þessi 58 ár hafi liðið án þess að styrjöld geisaði í Evrópu. Þannig má segja að þessu markmiði hafi verið náð enn sem komið er og ólíklegt kannski — og þó — en það er ólíklegt frekar að menn sjái fyrir sér stríð á milli Evrópusambandsþjóða.

Svo gerist það fyrir 52 árum að Kjarnorkubandalag Evrópu er stofnað og svo er Efnahagsbandalagið stofnaði 1957, sama ár, og segja má að það sé fæðingardagur Evrópusambandsins og það er eiginlega hálf öld síðan og er afskaplega stuttur tími í samanburði við Íslandssöguna, svo maður tali nú ekki um sögu Evrópu. Ég ætla ekki að fara dýpra í hana. Fyrst voru þetta sem sagt sex stofnríki og síðan bættust við þrjú 1973, fyrir 36 árum. Ég er að segja frá þessu, frú forseti, til þess að undirstrika hvað Evrópusambandið sé í rauninni ungt og hvað það breytist mjög hratt. Árið 1973, fyrir 36 árum bættust við Danmörk, Írland og Bretland og þá voru þau orðin níu. Svo kom Grikkland. Svo bættust við Spánn og Portúgal og þá voru þau orðin tólf fyrir 23 árum. Það eru sem sagt 23 ár síðan Evrópusambandslöndin voru tólf og þá var lagður grunnur að sameiginlegum innri markaði. Það var fyrst þá, fyrir 23 árum, sem var lagður grunnur að sameiginlegum innri markaði. Eldra er nú Evrópusambandið ekki. Síðan er sáttmálinn um Evrópusambandið samþykktur fyrir sautján árum, 1992, og svo Amsterdam-sáttmálinn fyrir tólf árum, 1997, og þá voru aukin völd þings og fleiri málaflokkar felldir undir meirihlutaatkvæði í ráðherraráðinu. Þá fer þetta að taka á sig ákveðna mynd, svona ákveðna ríkismynd. Þá getur maður farið að tala um Evrópusambandið sem ekki bara lauslegt samband ríkja heldur var komið þarna þing sem var sameiginlegt fyrir allt bandalagið. Svo er til dæmis ekki hjá Sameinuðu þjóðunum. Reyndar er þing þar. En það er ekki kosið til þess af aðildarþjóðunum. Það verður sem sagt heilmikil breyting með þessu.

Fyrir átta árum er Nice-sáttmálinn samþykktur og þá er undirbúin frekari stækkun. Svo er evran og Schengen tekið upp 2002, reyndar ekki fyrir öll ríkin. Það eru tólf ríki núna með evru og 22 plús tvö eru aðilar að Schengen-samkomulaginu. Það má því eiginlega segja að með evrunni hafi þetta virkilega þróast í átt til ríkis því að þá var komið þing og mynt. Maður spyr sig hvað eitt til viðbótar einkenni ríki. Það er kannski her. Menn eru stöðugt að ræða um að stofna her og það er kannski það sem skortir í dag.

Árið 2004, fyrir fimm árum, verður eiginlega sprenging í Evrópusambandinu því að þá voru tekin inn tíu lönd, flest frá fyrrum Sovétríkjum en ekki öll reyndar. Kýpur og Malta voru ekki þaðan. Þá nánast tvöfaldaðist fjöldi ríkja og varð náttúrlega mikil breyting á Evrópusambandinu. Það eru bara fimm ár síðan, frú forseti. Það eru nú öll ósköpin sem við erum að tala um. Í Evrópusambandinu núna eru um það bil 500 milljón manns og í Brussel starfa 50 þúsund embættismenn alla daga, eru á fundum dag og nótt, ekki nótt kannski, en mikið á fundum og allir þessir embættismenn eru í rauninni alltaf að vinna að því að búa til ríki. Þeir eru að semja stjórnarskrá eins og Lissabon-sáttmálinn átti að vera og þeir standa fyrir kynningarherferðum og þeir búa sig undir aðildarkosningar. Til dæmis þegar kosið verður hér á Íslandi mun mikil kynningarstarfsemi fara í gang af hendi Evrópusambandsins og miklir peningar eru lagðir í svoleiðis áróðurs- og markaðsstarf til þess að stækka sambandið og þjappa því saman í ríki. Þetta er nokkuð sem margir hafa bent á sem ákveðna hættu.

Þrjú ríki bíða núna í ferli til viðbótar við þessi 27. Það eru Króatía, Tyrkland og Makedónía og svo kannski, ef við samþykkjum þessa beiðni, þá bætist Ísland við og þá verður eiginlega komið 31 ríki í Evrópusambandið.

Það sem ég er að segja með þessu er að Evrópusambandið er í miklu breytingaferli. Það er á fleygiferð í átt til ríkis. Ef við lítum á þetta svona er þetta ekkert annað en þróun í átt til ríkis og sú þróun verður sífellt sterkari. Minn fyrirvari við það að ganga í Evrópusambandið er sá að ég hugsa til miklu lengri tíma. Ég er ekki að hugsa um átta eða tíu eða tuttugu ár. Ég er að hugsa um 50 eða 100 eða 200 ár því að ef við göngum inn í Evrópusambandið og ef það skyldi nú hanga saman — sem er önnur spurning. Kannski hefur það vaxið of hratt. Kannski brotnar það innan frá vegna ofvaxtar og of hraðs vaxtar. Það er mikið rætt í Evrópusambandinu — en ef það þróast með sama hraða áfram þó ekki væri nema í 20 ár, 30 ár, 40 ár, þá er þetta orðið pikkfast ríki.

Þann 30. júní felldi stjórnlagadómstóll Þýskalands úrskurð um Lissabon-sáttmálann. Ég fæ reyndar dálítið ruglingskennda niðurstöðu af þeim dómi. En mér sýnist helst að hann segi að Lissabon-sáttmálinn sé ekki í andstöðu við þýsku stjórnarskrána en það þurfi að gera ákveðnar breytingar á henni og breytingar á lögum í Þýskalandi. En dómstóllinn tekur alveg sérstaklega fram að Þýskaland sé sjálfstætt ríki. Hann telur sig þurfa að taka það sérstaklega fram að Þýskaland sé sjálfstætt ríki en ekki sameinað Evrópuríki. Hann er því svona að reyna að spyrna við fótunum, sýnist mér, við þessari þróun í átt til ríkis en auðvitað er Evrópusambandið að þróast í átt til ríkis.

Ef við lítum á Evrópusambandið svona utan frá eins og við Íslendingar gerum þá er spurning: Hvað er þetta eiginlega? Mér sýnist að þetta sé svona: Fyrst var það stofnun til þess að varðveita til frið en svo fer það eiginlega að verða til þess að halda fátæklingum fyrir utan. Þetta er tollabandalag sem er til þess að vernda innlenda framleiðslu, sérstaklega landbúnað og annað slíkt, og halda vörum annarra fyrir utan með tollmúrum og svo framvegis. Ef ég væri mannvinur og annað slíkt, sem ég kannski er, þá mundi ég gagnrýna þetta mjög alvarlega, þ.e. að ríku þjóðirnar í Evrópusambandinu séu að reisa utan um sig tollmúra til þess að halda fátæka fólkinu fyrir utan. Það berast stöðugar fréttir af fólki sem er að flýja inn í Evrópusambandið utan frá, flýja mjög bágborin kjör í Norður-Afríku og annars staðar, sem reynir með öllum ráðum, jafnvel með lífshættulegum ráðum að smygla sér inn í Evrópusambandið.

Ég sagði í upphafi að Íslendingar hefðu fengið sjálfstæði og fullveldi og að með aðild að Evrópusambandinu verði þeir að afsala sér þessu fullveldi og sjálfstæði. Margir hafa sagt, og sumir jafnvel svona í hálfkæringi, að fullveldi sé eitthvað allt annað en það var og sé gamaldags fyrirbæri. Sumir segja jafnvel að menn hafi fullveldi til þess eins að afsala sér því, að menn hafi fullveldi til þess að geta hætt við að vera fullvalda. Það er dálítið merkileg hugsun. Sumir segja að fullveldi sé í rauninni ekki lengur til. Við gerumst aðilar að Sameinuðu þjóðunum og við samþykkjum mannréttindayfirlýsingar og annað slíkt og í hvert skipti sem við gerum það þá séum við að afsala hluta af fullveldinu og það sé eitthvað allt annað hugtak en það sem Jón Sigurðsson var að ræða um hérna þegar hann barðist fyrir sjálfstæði Íslands, að þetta sé orðið eitthvað mjög gamaldags fyrirbæri og eigi ekki lengur við.

Þó verður ekki fram hjá því litið að til dæmis Danmörk gerir ekki viðskiptasamninga við Tævan. Evrópusambandið sér um það. Þar af leiðandi er Danmörk ekki lengur eins alþjóðleg eins og hún var. Danmörk er orðin svona dálítið, hvað á ég að segja, heimsk í þeim skilningi að heimskur sé heimakær, sá sem fer aldrei út. Evrópusambandið er í reynd andstæða við það að vera alþjóðlegt. Það gengur eiginlega út á það að þjappa sér inn i einhverja blokk og þá má maður ekki hafa samskipti við það sem er fyrir utan. Maður hefur kannski meiri samskipti inni á heimilinu. En maður má ekki fara út. Íslendingar hafa núna heimild til að gera samninga við hvaða ríki sem er, hvar sem er. En ef það gengi í Evrópusambandið gæti það ekki gert slíka samninga þannig að aðild að Evrópusambandinu er í mínum huga einangrunarstefna en ekki alþjóðastefna þó að margir haldi því öndverða fram.

Það sem ég óttast mest í sambandi við Evrópusambandið er sem sagt ekki endilega að þetta sé ekki góður klúbbur. Ég hugsa að þetta sé tiltölulega þokkalega góður klúbbur. Ég bjó sjálfur í Þýskalandi lengi og auðvitað þurfa svona risaríki að hafa mjög strangar reglur. Það er ljóst að eftir því sem ríki stækkar þeim mun minni verður borgarinn. Það verður minna svigrúm fyrir borgarana, þ.e. undanþágur og því um líkt. Það má eiginlega segja að menn séu að velja á milli þess að vera stórt tannhjól í litlu úri eða að vera pínulítið tannhjól í risastóru úri og hafa þar af leiðandi afskaplega lítil áhrif á örlög sín og framtíð. Um það eru menn að velja í mínum huga. Það sem ég óttast mest er að eftir einhver ár — og það getur enginn sagt mér það eðlilega hvernig Evrópusambandið verður eftir 50 ár — að þá get ég séð fyrir mér að Ísland verði einhvers staðar á jaðrinum, alveg úti við röndina eins og Grímsey eða Raufarhöfn og hlutföllin í íbúafjölda svona svipuð og áhrifin verða sennilega svipuð og áhrif Raufarhafnar á stjórn Íslands. Auðvitað vita menn á Íslandi, hér í Reykjavík af Raufarhöfn og menn veita fé í höfn á Raufarhöfn og svo framvegis. En áhrif Raufarhafnar á stóru pólitíkina í Reykjavík eru eflaust ekki mikil ef menn fara að greina þau og ekki verða áhrif Íslands meiri í Evrópusambandinu. Jafnvel þó að við fengjum þrjú atkvæði af 600 þá vita allir hverjir borga. Það eru Þjóðverjar sem borga og það eru Frakkar sem borga næstmest og svo Bretar. Það er miklu meira tillit tekið til atkvæða sem þeir hafa, hlutfallslega þó miklu minna því að það er gífurlegur lýðræðishalli í Evrópusambandinu. Stjórnlagadómstóllinn þýski benti einmitt á þetta, þ.e. að Maltverji hefur miklu meira atkvæðavægi en þýskur kjósandi í Evrópusambandinu. Það er mikill lýðræðishalli. Íslendingar hefðu hlutfallslega miklu meiri áhrif í Evrópusambandinu en Þjóðverjar. Mér skilst að 1,8 milljónir Þjóðverja séu á bak við hvern þingmann á Evrópuþinginu á meðan þeir væru miklu færri hér á Íslandi, 60–70 þúsund, eitthvað svoleiðis. Það þýðir að hver Íslendingur hefði í raun samkvæmt því meiri áhrif en hver kjósandi í Þýskalandi. En menn vita hver ræður. Þjóðverjar ráða náttúrlega miklu meiru en atkvæðamagn þeirra segir til um.

Mikil umræða hefur verið um Evrópusambandið undanfarið í öllum flokkum og kannski sérstaklega eftir hrun. Fólk leitar að einhverri lausn, einhverju hálmstrái, einhverju sem losar það undan því ógnvekjandi ástandi sem ríkir í þjóðfélaginu, gjaldþrotum og atvinnuleysi sem við Íslendingar höfum lítt þekkt, ógnarmiklum skuldum heimilanna, sumra alla vega, og miklu óöryggi. Þá leitar fólk að einhverju skjóli, einhverri lausn. Mér finnst að fylgjendur Evrópusambandsins hafi færst í aukana undanfarið til að nota sér þessa stöðu til þess að keyra í gegn þessa umræðu og hér erum við komin í dag. Fylgjendur Evrópusambandsins — mikil umræða hefur farið fram í öllum flokkum nema Samfylkingunni. Þar er engin umræða um Evrópusambandið og hefur ekki verið í mörg ár — fylgjendurnir lofa stöðugu og lægra verðlagi, engri verðbólgu. Þessu er lofað. Þetta er standard frasi. Væntanlega eru þeir þá að lofa evru. En samt vita þeir — færð hafa verið fyrir því rök aftur og aftur — að evra verður ekki tekin upp, jafnvel þó að við gengjum inn í Evrópusambandið eftir ja, tvö ár, segja sumir að gæti gengið svona maxímalt — að við tökum ekki upp evruna fyrr en eftir — ja, fjármálaráðuneytið sagði 30 ár. Ég hef sagt sjö ár. Það verður einhvers staðar þar á milli sem við tökum upp evru ef við náum að uppfylla Maastricht-skilyrðin einhvern tíma og ef okkur verður yfirleitt hleypt inn í Evrópusambandið. Það er líka spurning.

Talandi um stöðugt og lægra verðlag þá gerist það ekki nema með eigin aðgerðum og það getum við alveg gert sjálf. Mér sýnist að þjóðin sé að vinna heilmikið í því að koma með stöðugt og lægra verðlag því að hún hefur mikið dregið úr neyslu og hún er farin að spara mikið. Allt saman bendir þetta í átt til stöðugra og lægra verðlags. Ég hugsa því að innan mjög skamms tíma munum við upplifa það að hér verði stöðugt og lágt verðlag. Auðvitað búum við við ákveðnar ógnir eins og Icesave-reikninginn sem ég kem inn á hérna á eftir.

Síðan lofa menn lægri vöxtum. Nú er að koma í ljós í Evrópusambandinu að það eru ekkert sömu vextir alls staðar. Hvernig skyldi nú standa á því? Þetta er sama evran. Hvernig stendur á því að í evrulandinu séu mismunandi vextir og að það fari vaxandi núna eftir kreppuna miklu? Það er vegna þess að traust manna á viðkomandi bankastofnunum er bara ekki meira í sumum löndum. Það er meira í öðrum löndum og þar eru vextirnir lægri. Menn geta því ekki einu sinni lofað hér á Íslandi lægri vöxtum þó að evran yrði tekin upp strax.

Svo spurði ég áðan um verðtrygginguna. Það er enginn búinn að segja mér hvernig menn ætla að leysa vandamálið með verðtrygginguna þegar evran er tekin upp. Í gildi eru verðtryggðir samningar, þ.e. skuldabréf sem Íbúðalánasjóður hefur gefið út og hann lofar að borga verðtryggingu og ákveðna vexti sem eru lágir vegna verðtryggingar á samningnum. Hvernig ætla menn að taka þann samning úr gildi? Verður það þá evra með verðtryggingu? Ég spyr. Mér finnst að menn hafi bara ekkert leyst þetta vandamál og ekki bent á neinar leiðir til þess. Við erum að tala um 20, 30, jafnvel 40 ára samninga.

Það sem ég get fallist á í rökum fylgjenda Evrópusambandsins er að skiptikostnaður atvinnulífsins minnkar. Menn vinna á sömu mynt og þeirra kaupendur vinna á, þ.e. ef þeir selja til Evrópusambandsins þá geta þeir gefið út evrur og notað evrurnar sjálfir þannig að vissulega eru töluverð þægindi af því, einhver, en ekki endilega.

Svo er standard frasi hv. samfylkingarþingmanna sá að við höfum áhrif í Evrópusambandinu. Ég er búinn að ræða það. Það held ég að sé draumsýn. Auðvitað held ég að snjallt fólk með góðar hugmyndir geti komið þeim hugmyndum á framfæri jafnt í dag sem aðra daga í Evrópusambandinu. Við höfum ákveðin tæki í gegnum Evrópska efnahagssvæðið til þess og menn þurfa ekkert endilega að vera þingmenn á Evrópuþinginu til þess að geta spjallað við mann og annan á þeim bæ.

Svo er það sem fylgjendurnir hafa sagt, þ.e. að þeir ætli sér að sækja um og tryggja sjávarauðlindir og orkuauðlindir varanlega. Það hafa allir þingmenn lofað mér hérna í dag. En svo veit ég hvað gerist. Það mun koma samningur og í þeim samningi er sagt að við getum veitt fisk í 20 ár algjörlega eins og hingað til. Og þar sem flest fólk hugsar mjög til skamms tíma þá er fyrir það 20 ár heil eilífð. En það áttar sig ekki á því að Evrópusambandið hugsar allt öðruvísi. Það hugsar: „Eftir 20 ár eru þessi 20 ár liðin og þá komum við og hirðum af ykkur fiskinn.“ Þetta óttast ég við það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þ.e. það verður gyllt fyrir mönnum að þeir séu búnir að fá undanþágu um þetta og hitt og að undanþágan sé til svo langs tíma að það sé eiginlega fyrir Íslendinginn nánast óhugsandi að hugsa hann til enda og það sé eiginlega allt að því eilífð og að menn muni fallast á slíka undanþágu. Þess vegna hef ég alltaf talað um 20, 30 eða 40 ára tímabil og jafnvel 200 ára tímabil. Það hef ég gert til þess að láta fólk átta sig á því að það er ekki að fjalla um eigið líf heldur um afdrif þjóðarinnar til framtíðar eftir 100 eða 200 ár. Þegar við allir hv. þingmenn erum dauðir að þá mun íslenska þjóðin væntanlega vera áfram til staðar og við erum að taka ákvörðun um afdrif hennar nákvæmlega eins og var gert 1262.

Andstæðingar Evrópusambandsins eins og ég hafa bent á afsal fullveldis og sjálfstæðis og það að hagur Íslands sé háður því að menn geti haft áhrif á eigin mál beint og fljótt og hafi sem sagt eitthvað um eigin mál að segja. Svo hafa menn líka bent bara á þá staðreynd að Ísland hefur breyst úr því að vera ein fátækasta þjóð í Evrópu í að vera ein ríkasta eftir að við fengum fullveldi og sjálfstæði. Einhver kann að segja að það sé nú algjör tilviljun. Ég held ekki. Ég held að það sé vegna þess að við höfum um okkar eigin mál að segja. Það eru til lönd eins og Nýfundnaland sem misstu sjálfstæðið og eru í þeirri stöðu að þar er ákveðin stöðnun vegna þess að valdið er svo langt í burtu.

Það sem andstæðingarnir hafa sérstaklega bent á eru kannski auðlindirnar, að við munum missa þær. Mér finnst eiginlega of mikil áhersla lögð á það, frú forseti. Þær auðlindir sem við erum að tala svo mikið um voru ekkert auðlindir fyrir nokkrum árum eða nokkrum öldum. Raforkan eða fyrsta rafmagnið var framleitt á Íslandi fyrir rétt rúmlega 100 árum í Hafnarfirði og þangað til var fallorka vatnanna engin auðlind í sjálfu sér. Jökulvötnin voru meira að segja bölvaldur í sveitunum því að þau skáru í sundur sveitirnar og menn komust ekki yfir nema á einstaka stað yfir vöð með ferjumönnum. Eru frægar sögur af því og mörg slys hafa orðið í þessum fallvötnum þannig að þau voru ekki auðlind. Þau voru frekar bölvaldur. Eins er það með sjávarútveginn. Hann var ekki auðlind í þeim skilningi að hann gæfi einhvern auð því að þjóðin sótti sjóinn við mikla fátækt og mikið erfiði og mörg mannslát því miður. Þess vegna vil ég, frú forseti — ég skil nú ekkert í því hvað menn hafa lítið haldið upp á það að á síðasta ári dó enginn maður á sjó og þess vegna ætti virkilega að vera hátíð á Íslandi því að það hefur ekki gerst frá því að Ísland byggðist vil ég fullyrða, ekki eitt einasta ár hefur það gerst fyrr en árið 2008. Það er góð frétt í öllum slæmu fréttunum.

Við getum ekki rætt um Evrópusambandið nema fjalla um Icesave, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og hrunið. Það er nefnilega ákveðið samhengi þarna á milli. Við tókum upp reglugerðir Evrópusambandsins varðandi innlánstryggingar. Við tókum upp reglugerðir Evrópusambandsins varðandi frjálst flæði fjármagns og stofnun banka og annars slíks og íslenskir athafnamenn nýttu sér þetta ásamt mjög auðveldum aðgangi að fjármagni. Þeir voru sem sagt mjög duglegir við að taka ódýr lán í útlöndum og fjárfesta í útlöndum í gegnum íslenska banka. Þetta endaði með ósköpum eins og flestum er kunnugt því að menn tóku óskaplega mikla áhættu vegna krosseignarhalds og raðeignarhalds og þess að eigendur bankanna lánuðu sjálfum sér, sem mér finnst mjög varasamt og vafasamt og vona að það verði krufið til mergjar hvort það standist lög. Því varð kerfið eiginlega mjög viðkvæmt. Ef hreyft var við einum dómínókubbi hrundi næsti og svo næsti. Það gerðist einmitt með bankana. Þeir hrundu allir mjög hratt á einni viku í október. Það olli miklum vandræðum á Íslandi og ég held að eftir það hafi komið upp krafan um að finna einhverja lausn. Menn hafa mest kennt krónunni um, talið að þetta sé henni að kenna, og við viljum fá eitthvað annað, við viljum fá evru eða eitthvað gott, eitthvað stöðugt, einhvern sem styður okkur. Þess vegna er núna krafan um að ganga í Evrópusambandið eða alla vega skoða hvað Evrópusambandsaðild gefi, sem er dálítið skrýtið. Mér finnst mjög skrýtið að einhver ætli að skoða hvað Evrópusambandsaðild geti gefið en ætlar ekki að ganga inn. Margir hafa lýst því yfir að þeir ætli bara ekki að ganga inn. Þeim dettur það bara ekki í hug. En þeir vilja skoða hvað sé í pokanum, hvaða nammi sé þarna ofan í og svo framvegis.

Fasteignasalar þekkja þetta reyndar. Fólk kemur til að skoða íbúðir en ætlar ekkert að kaupa. Það er aðallega svona að skoða hvernig fólkið býr og hvers virði íbúðin þeirra sjálfs er. Þetta fólk er ekki vel séð hjá fasteignasölum og ekki heldur hjá seljendum eignanna. Ég hugsa að Íslendingar verði heldur ekki vel séðir í Evrópusambandinu ef þeir koma þangað bara til þess að kíkja á hvað þetta gefur en ætla ekkert að ganga inn eins og hæstv. fjármálaráðherra. Hann ætlar sér að sækja um. Hann ætlar að styðja aðildarumsókn. En hann lýsti því hér yfir að hann ætlaði ekki að ganga inn. Hann vill ekki sjá Ísland í Evrópusambandinu.

Það leiðir aftur hugann að því að hann ætlar sér samt að leggja í þetta 1.000 milljónir og hélt maður nú kannski að það væri lítið til af peningum í dag. Það er verið að skera niður þjónustu hér og segja upp fólki og alls konar vandræði eru í ríkisfjármálum og verður örugglega enn harðara í haust. Á sama tíma ætla menn að leggja í þetta 1.000 milljónir en ætla sér ekki að ganga inn. Það er hreinlega verið að henda peningum út um gluggann.

Sumir hafa sagt að aðfarir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í haust sem voru greinilega tengdar því að það ætti að þvinga Íslendinga til að taka upp Icesave-reikningana, þ.e. að þar á bak við hafi verið Bretar og Hollendingar og allt Evrópusambandið jafnvel, að þeir hafi í rauninni verið að þvinga Íslendinga til að taka á sig skuldbindingar sem þeir áttu ekki að taka og hugsanlega geta ekki tekið á sig. Þetta er klúbburinn sem við ætlum að ganga í.

Ég ætla að koma inn á eitt atriði, kannski ekki alveg að lokum en svona eiginlega, og það er stjórnarskráin íslenska. Við hv. þingmenn höfum svarið eið að stjórnarskránni og það er ákveðin stjórnarskrá í gildi í dag sem tryggir grunnréttindi, mannréttindi. Reyndar fjallar hún mest um forsetann og Alþingi. En henni er ætlað að tryggja ákveðin grunnréttindi og hún á að vera mjög óbreytanleg. Þingmenn hafa svarið eið að henni og hún er þarna. Svo eru menn núna að fara að samþykkja þingsályktun um að sækja um og skrifa undir samning við Evrópusambandið sem þeir vita að samræmist ekki gildandi stjórnarskrá. Menn vita það. Þeir eru sem sagt að fara að samþykkja þingsályktunartillögu sem brýtur gildandi stjórnarskrá. Ég held að þetta sé mjög varasamt, frú forseti. Ég held að það sé mjög varasamt að samþykkja þingsályktunartillögu sem brýtur stjórnarskrána, og gengur út frá því að henni verði breytt. Ég held að maður megi þetta ekki.

Hér voru í gildi lög sem brutu stjórnarskrána að mati Hæstaréttar varðandi öryrkja og eins varðandi kvótamálið og það varð til þess að menn flýttu sér sem mest þeir máttu á Alþingi að breyta þeim lögum af því að þau meiddu stjórnarskrána. Hæstiréttur sem eins konar stjórnlagadómstóll dæmdi svo að þessi lög brytu stjórnarskrána og þá fór Alþingi svo hratt sem auðið var í að breyta þessu. Nú er verið að samþykkja þingsályktunartillögu sem brýtur stjórnarskrána, því að allir eru sammála um að aðild að Evrópusambandinu verður ekki samþykkt nema stjórnarskránni verði breytt á þann veg að hún heimili þetta framsal á fullveldi og sjálfstæði, að menn afsali sér fullveldi og sjálfstæði að einhverjum hluta. Ég veit ekki almennilega hvað menn hafa fyrir sér í því. Sumir segja að þetta sé bara pólitík. En ég tel nú að stjórnarskráin sé ekki pólitík. Stjórnarskráin er grundvallarlög landsins sem eru í gildi og eiga að vera í gildi eins og þau eru hverju sinni, frú forseti. Þeim verður ekki breytt nema að undangengnum kosningum og nýtt þing þarf að samþykkja stjórnarskrána. Henni hefur sem sagt ekki verið breytt og við megum ekki ganga í Evrópusambandið. Við megum ekki skrifa undir samning og samþykkja aðild að Evrópusambandinu.

Það var mjög miður í vor rétt fyrir kosningar er við ræddum þá einmitt breytingar á stjórnarskránni — ég lagði mikla áherslu á það og barðist fyrir því að menn breyttu eingöngu 79. gr. sem fjallar um breytingu á stjórnarskránni þannig að breytingin yrði ekki eins þunglamaleg og hún er í dag og það yrði ekki þannig að breyting á stjórnarskránni félli alltaf saman við kosningar til Alþingis þannig að þjóðin er í raun aldrei að greiða atkvæði um breytingar á stjórnarskránni. Hún er alltaf að kjósa fólk til þess að stjórna landinu næstu fjögur ár. Þar af leiðandi er breyting á stjórnarskránni í rauninni aldrei borin undir atkvæði almennings.

Ég vildi breyta 79. gr. stjórnarskrárinnar þannig að hægt yrði að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu, að breyting á stjórnarskránni krefðist þjóðaratkvæðagreiðslu en með háum mörkum þannig að það segjum helmingur atkvæðisbærra manna þyrfti að samþykkja breytingu á stjórnarskrá til þess að hún yrði gild, að það væri ekki nóg að 60% greiddu atkvæði og 31% samþykktu. Það finnst mér ekki nægilegt. Ég hefði viljað hafa þröskuldinn mjög háan en þannig að hægt verði að gera breytingar á stjórnarskránni og að þjóðin greiði atkvæði um það sérstaklega. Því miður varð ekki úr þessu sem þýðir að næstu breytingu á stjórnarskránni gerum við ekki fyrr en í lok þessa kjörtímabils eða þegar búið er að gera breytingar á stjórnarskránni þá þurfi strax að kjósa sem er mjög mikill þröskuldur í því að gera breytingar.

Ég sé ekki hvernig menn geta farið til Brussel, þ.e. hvernig Alþingi getur samþykkt þingsályktunartillögu sem brýtur núgildandi stjórnarskrá. Ég sé það ekki fyrir mér og mér finnst mjög alvarlegt ef menn ætla að gera það því þeir vita — það stendur út um allt í greinargerðum og annars staðar — að það þarf að breyta stjórnarskránni. En hvernig geta menn breytt stjórnarskránni ef þjóðin á að taka ákvörðun um það í kosningum? Ég sé ekki að slíkt sé hægt.

Svo er það spurningin: Hvað gerist ef þessi þingsályktunartillaga frá ríkisstjórninni er samþykkt, sem ég vona innilega að verði ekki. Þá er það þannig samkvæmt stjórnarskránni að forseti lýðveldisins gerir samninga við erlend ríki. Þetta er nú eitt af platinu í stjórnarskránni sem ég hef margoft bent á því að svo stendur í annarri grein — mig minnir að það sé 13. gr. — að forsetinn láti ráðherra framkvæma vald sitt. Þá erum við komin að því að það er utanríkisráðherra sem á að gera samninga við erlend ríki. Það er hann sem á að semja við Evrópusambandið um framkvæmd þessarar þingsályktunartillögu. Sá maður er náttúrlega mikill aðdáandi Evrópusambandsins. Hann er svo mikill aðdáandi Evrópusambandsins að ég treysti honum engan veginn til þess að semja við það. Það yrði þá nákvæmlega eins og þegar hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar voru að semja um Icesave. Þeir fóru þangað út með vissu um það að Evrópusambandið hefði rétt fyrir sér. Bréfaskriftir hæstv. viðskiptaráðherra á þeim tíma, Björgvins G. Sigurðssonar, sýna mér alveg greinilega að hann vissi að Evrópusambandið, eða Bretar og Hollendingar, hefðu rétt fyrir sér en Íslendingar rangt. Og eftir því varð niðurstaðan, því miður. Það er búið að vera þjóðinni afskaplega dýrkeypt.

Ég óttast að það sama muni gerast þegar hæstv. utanríkisráðherra fer að semja við Evrópusambandið, þ.e. að hann muni vera glaður að skrifa undir, ég segi ekki nánast hvað sem er. En hann verður ekkert mjög harður á sínu af því að hann trúir því að það sé gott að ganga í Evrópusambandið. Mér líst því ekkert á það samningslið sem verður sent út. Mér líst ekkert á það, því miður. Þó að menn hafi sett inn í nefndarálit utanríkismálanefndar að það eigi að hafa samráð við utanríkismálanefnd og allt slíkt reglulega þá þekkjum við svoleiðis ákvæði. Við þekkjum það líka að það er haft samráð til að tilkynna um eitt og annað.

Þá getur maður sagt að það sé þjóðin sem taki ákvörðun um þetta á endanum. Það er nú einmitt það sem ég óttast kannski hvað mest, því að Evrópusambandið hefur þvílíka peninga í markaðssetningu og það beitir þeim akkúrat í þeim löndum þar sem eru atkvæðagreiðslur af miklu ofurafli. Fjöldi Íslendinga er á launum hjá Evrópusambandinu í dag við alls konar rannsóknir og annað sem heitir háskólasamfélag, háskólasamstarf og annað slíkt. Þessir menn eru settir í að upplýsa þjóðina um gildi þess að ná fram því að við megum veiða fisk í 20 ár til dæmis, að það sé ógurlega mikils virði. Svo er keyrt á markaðsstarfið og aðrir sem eru á móti Evrópusambandinu hafa ekkert í þessa miklu fjármuni sem Evrópusambandið hefur og setur í markaðsstarf rétt fyrir kosningar. Þetta er þekkt. Þetta óttast ég við það að sækja um aðild að Evrópusambandinu, þ.e. að það verði þvílíkar hótanir og loforð þegar að kosningum kemur að menn muni hugsanlega ná árangri jafnvel þó að þjóðin í heild sinni vilji ekki ganga í Evrópusambandið. Það er mín tilfinning að Íslendingar vilji yfirleitt ekki afsala sér sjálfstæðinu sem þeir fengu fyrir löngu síðan og sérstaklega ekki minn flokkur.

Ég vil lýsa því yfir bara hér í lokin, frú forseti, til þess að það sé alveg á hreinu að ég er á móti því að ganga í Evrópusambandið og mun greiða atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar.