137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:53]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu, hann kom inn á mörg sjónarmið, t.d. það að við túlkun laga og þingsályktana er farið að orðanna hljóðan. Segjum svo að breytingin sem hv. utanríkismálanefnd ætlar að leggja fyrir verði samþykkt þá stendur í henni, með leyfi frú forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Við undirbúning viðræðna o.s.frv. skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag sem fram koma í nefndaráliti meiri hluta.

Nú er það spurning mín til hv. þingmanns: Hvað þýðir „sjónarmið“? Og hvað gerist ef sendinefnd ríkisstjórnarinnar, þ.e. utanríkisráðherra sjálfur, tekur bara ekkert mark á þessu? Hvað gerist þá? Kemur svo með samning til Íslands? Þá ætla ég að spyrja hv. þingmann af því að hann ýjaði að því: Hvernig lítur hann á áróðursgetu Evrópusambandsins til að hafa áhrif á almenningsálit á Íslandi þannig að kosningar falli alltaf því í hag?

Svo ætlaði ég að spyrja að öðru. Samkvæmt stjórnarskránni getum við ekki sótt um aðild að Evrópusambandinu, það eru allir sammála því. Það er ekki heimilt að afsala sér fullveldi og sjálfstæði eins og Evrópusambandsaðild krefst. Nú er verið að leggja hér fram þingsályktunartillögu sem brýtur greinilega stjórnarskrána. Hvað segir hv. þingmaður við því? Getur Alþingi og má það samþykkja þingsályktunartillögu, segja að ríkisstjórnin eigi að leggja inn umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem er bönnuð samkvæmt stjórnarskrá? Fær þetta staðist, er þetta þinglegt yfirleitt?