137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svarið er mjög einfalt og skýrt: Nei, þingið má ekki aðhafast neitt sem brýtur í bága við stjórnarskrána. Ég held að sú skoðun mín hafi alltaf komið fram.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég tel að við séum sammála í meginatriðum og það var ágætt að hann benti einmitt á þetta, þessa breytingartillögu, að þarna er orðið „sjónarmið“ inni en ekki „skilyrði“. Ég held að samkvæmt venjulegri málvenju þýði þessi tvö orð ekki það sama, þetta er ekki skilyrði heldur sjónarmið. Þá gerist það sama að mínu mati og gerðist varðandi Icesave-samningana þegar var fullyrt hér af hv. þingmönnum að farið yrði í einu og öllu eftir Brussel-viðmiðunum en það var ekki gert. Af hverju? Það stóð ekki í þingsályktunartillögunni sjálfri. Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr þá á samkvæmt lögskýringarsjónarmiðum að meta fyrst og fremst þingsályktunartillögur og lagafrumvörp samkvæmt orða þeirra hljóðan.

Markaðsstyrkur Evrópusambandsins, að þeir geti knúið íslensku þjóðina til þess að kjósa alltaf á sinn veg, markaðsstyrkurinn er náttúrlega svo margfalt, margfalt á við íslensku þjóðina og það er einmitt það sem ég var í rauninni að benda á í ræðu minni að við erum að fara inn í risastórt hagkerfi sem tekur mið af því að þar búa um 500 milljónir manna. Við erum 300 þúsund í frekar stóru landi og við eigum allt annarra hagsmuna að gæta. Burt séð frá því hvað mönnum finnst um Evrópusambandið per se, og við getum fallist á það að hugsjónin í upphafi, að stofna til friðar í Evrópu (Forseti hringir.) hafi verið göfug, en þetta hentar okkur Íslendingum engan veginn.