137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[15:35]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir skýr svör. Við eigum það sameiginlegt að elska fullveldið mikið og hafa mikla trú á lýðræðinu. En mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvort hún sé sammála mér um að hraðinn sem einkennir þetta mál tengist því að hér er til meðferðar mál sem kallast Icesave-samningarnir. Sér hún einhverja tengingu þar á milli? Það er hægt að lesa það í breskum fjölmiðlum í dag að þeir eru alla vega búnir að tengja málin saman, að það komi til með að hafa áhrif á það hvernig okkar aðildarumsókn verður tekið í Evrópu og þá sérstaklega af Bretum ef Icesave-samningarnir verða felldir í þinginu. Er þingmaðurinn sammála mér um að þarna sé bein tenging á milli og ríkisstjórnin sé að hraða þessu máli í gegn til að það liggi fyrir þegar við förum í afgreiðsluna á Icesave?

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann að því af því að hún fór vel yfir þjóðaratkvæðagreiðslurnar hvort hún muni ekki styðja breytingartillögu hv. þm. Bjarna Benediktssonar og Þorgerðar K. Gunnarsdóttur, a.m.k. seinni liðinn, þar sem lagt er til að farið verði í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þ.e. náist samningar verði ríkisstjórninni gert að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá og eftir atvikum öðrum lögum sem af leiðir þannig að það sé hægt að fara í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta liggi fyrir og það er gríðarlega mikilvægt að við hér inni áttum okkur á þessum mun vegna þess að eins og hv. þingmaður kom inn á er varla hægt að sjá það að hv. formaður utanríkismálanefndar, sem stöðugt grípur fram í þegar hæstv. utanríkisráðherra hefur yfirgefið salinn og hefur greinilega stigið af þeirri vakt, þá er gríðarlega mikilvægt að við sem hér erum inni vekjum sterka og mikla athygli á þessum punkti vegna þess að ekki er vanþörf á. Miklir hagsmunir íslensku þjóðarinnar eru í húfi og það er gríðarlega mikilvægt að fólk vandi sig. Tilfinning mín er að ekki sé verið að því heldur einkennir hraðinn þetta mál og hlaup vinstri grænna frá stefnu sinni sem þeir boðuðu í kosningunum og voru kosnir a.m.k. í mínu kjördæmi af stórum hluta út af því að þeir ætluðu sér ekki að fara í Evrópusambandið og ekki að fara í aðildarviðræður þar um.