137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[16:39]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Þetta eru áhugaverðar spurningar. Ég ætla kannski að einbeita mér að fyrri spurningunni og ég nota þá kannski seinna andsvarið meira í hitt.

Innan Evrópu eða evrópska myntsamstarfsins eða Euro System, eins og það er kallað, eru miklar umræður um evruna og framtíð hennar. Þeir sem hafa gengið hvað lengst hafa talað um að hugsanlegt væri að evrunni, út af þeim annmörkum sem ég rakti hérna áðan, yrði skipt upp í tvennt. Það yrði haldið áfram með evruna fyrir þessi hefðbundnu ríki, Benelux-löndin og Mið-Evrópu en að það yrði sérmynt fyrir Miðjarðarhafslöndin. Þessi mynt hefur gengið undir nafninu PIGS, sem eru upphafsstafir Portúgals, Ítalíu, Grikklands og Spánar. Menn eru því mjög mikið að velta fyrir sér raunverulega hvort ein mynt geti staðið fyrir öll þessi lönd út af öllum þessum ástæðum sem ég rakti áðan. Þetta mun náttúrlega tíminn einn leiða í ljós og væntanlega fæst niðurstaða ekki fyrr en innan einhverra ára.

Hvað varðar Svíþjóð, Swedbank, eru þeir með stóran hluta af sinni lánaportfólíu eða þó nokkurn hluta af sinni lánaportfólíu inni í baltnesku löndunum og þar eru löndin meira og minna hrunin eða sérstaklega Lettland, og það mun hafa bein áhrif á afskriftir inn í Swedbank sem rúllar þá inn í allt sænska bankakerfið. Því miður er ég ekki mjög bjartsýnn á það.