137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. menntamálaráðherra er einn af ábyrgðaraðilum að þessari tillögu enda er tillagan aðgöngumiði Vinstri grænna að ríkisstjórninni eins og hæstv. fjármálaráðherra upplýsti á föstudaginn var. Ég sat í Evrópunefnd með hæstv. menntamálaráðherra og þá var það þannig að til að undirstrika sérstöðu sína skiluðu fulltrúar VG sérstöku áliti þar sem lagt var á ráðin um það hvernig hægt væri að feta sig út úr EES-samningnum og breyta þeim samningi í tvíhliða viðskiptasamning.

Nú vil ég spyrja hæstv. menntamálaráðherra hvort sú tillaga sem hér liggur fyrir og við erum að ræða, sé einhvers konar innlegg í það, hvort hæstv. menntamálaráðherra sé þeirrar skoðunar að það að hefja aðildarviðræður upp á einn milljarð kr. við Evrópusambandið sé ákveðin aðferðafræði og innlegg inn í þá vegferð að komast út úr EES-samningnum og gera þann samning að tvíhliða viðskiptasamningi. Í mínum huga kemur þetta ekki heim og saman og því væri mjög fróðlegt að heyra viðhorf hæstv. menntamálaráðherra til þessa.