137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:24]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki náði ég því alveg hvort hæstv. menntamálaráðherra væri að tala fyrir því að þessi umsókn væri liður í þeirri vegferð að komast út úr EES-samningnum og gera hann að tvíhliða viðskiptasamningi. Ég vil þess vegna ítreka spurninguna: Er það enn þá stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að breyta EES-samningnum í tvíhliða viðskiptasamning og er það þá mat fulltrúa VG að sú aðferð sem hér er verið að leggja til, að sækja um aðild að Evrópusambandinu, sé einhvers konar liður í því?

Mér finnst mjög erfitt að átta mig á því að þetta tvennt geti farið saman en hæstv. ráðherra, sem hefur auðvitað betri innsýn inn í hugarheim Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en ég, hlýtur að geta þá upplýst okkur betur um þetta mál.

Spurningin er mjög einföld. Hún er þessi: Er það enn þá stefna VG að það væri eðlilegast að þróa EES-samninginn í átt að tvíhliða viðskiptasamningi? Í öðru lagi: Er þessi tillaga á einhvern hátt liður í því eða er hún á einhvern hátt til þess fallin að auðvelda það að breyta EES-samningnum í tvíhliða viðskiptasamning?