137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:28]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta þótti mér áhugavert svar. Í framhaldi af þessu vildi ég inna hæstv. ráðherra eftir þeim skoðunum sem m.a. komu fram í ágætri ræðu Tryggva Þórs Herbertssonar og fleiri sem hafa haft uppi vangaveltur um hver staða evrunnar muni verða. Getur hæstv. ráðherra tekið undir að það kunni að vera heppilegt fyrir Ísland að bíða og sjá hver framvinda málsins verður? Að það kunni að fara svo að evran verði einmitt ekki það bjargráð sem margir telja að yrði með upptöku hennar, að það kunni jafnvel að myndast sú staða að það muni reynast mönnum erfitt að búa við þá mynt eða sú mynt jafnvel eigi erfiða framtíð fyrir höndum?