137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[18:50]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að slæm fjárhagsstaða þjóðarinnar og efnahagshrun er staðreynd. Þingmaðurinn gat þess ekki hver bæri þar sök á. Það var Sjálfstæðisflokkurinn sem hv. þingmaður tilheyrir. Stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins skilur eftir sig þessa erfiðu fjárhagslegu stöðu. Það er staðreynd.

Hins vegar treysti ég mér til að leggja mig fram í þeim samningaviðræðum sem gætu farið í hönd. Þó svo að það sé ekki mitt kappsmál að Ísland gangi í Evrópusambandið geri ég mér grein fyrir þeirri ábyrgð og þeirri vinnu sem þarf að leggja af mörkum ef svo fer. Ráðuneytið hefur á að skipa góðu fólki og ég mun líka leggja mig fram, frú forseti.