137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[20:34]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú munu þingmenn rjúka til og fletta upp í fuglabókinni eða alla vega í þingmannatalinu til að reyna að finna hver þessi furðufugl er.

Ég vil, frú forseti, byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég er honum mjög sammála og deili með honum skoðunum í þessu máli. Ég tek undir þær áhyggjur sem hann lýsti hér vegna alls þessa máls og ekki síst þess kostnaðar og þeirra afleiðinga sem þetta mun hafa fyrir sjálfstæði og í raun fullveldi okkar hér á Íslandi.

Í grein sem er á bondi.is og kom á vefinn í dag er fjallað um skoðanir Bændasamtakanna á landbúnaðarkafla þessa meirihlutaálits og það er ekki fögur lesning. Mig langar hér að lokum að spyrja hv. þingmann hvort hann sé sammála mér um að þetta Evrópumál sem við erum nú að fjalla um sé eitt stærsta mál sem við höfum fjallað um eða sem Alþingi hefur fjallað um (Forseti hringir.) frá lýðveldisstofnun.