137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[11:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða hv. þm. Ásbjarnar Óttarssonar var á margan hátt mjög athyglisverð. En mér fannst hún vera fullóttablandin. Mér fannst hann vera hræddur við umheiminn í sinni ræðu. Ég held að það sé engin ástæða til að vera hræddur við nágranna okkar nú um stundir. Ég held að við þurfum akkúrat á nágrönnum okkar að halda. Ég tek undir það hins vegar að ekki er sama hvernig við semjum við þá, hvorki um Icesave né hugsanlega um Evrópusambandið.

En mér þykir miður að menn tali í þessari umræðu sem svo að einhverjir séu blindir af trúarbrögðum ef ekki trúarofstæki í þessu máli. Mér dettur ekki í hug að tala svona. Þetta er, svo maður grípi danskt orð á flugi, „billegt“. Mér dettur ekki í hug að tala um kvótamálið sem nein trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins. Mér dettur ekki í hug að tala um einkavæðingu sem trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins. Mér dettur ekki í hug að tala einu sinni um fjölmiðlafrumvarpið heitið sem þáverandi trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins, hvað þá Íraksstríðið eða Þjóðhagsstofnun og aflagningu hennar, þ.e. að það hafi verið trúarbrögð Sjálfstæðisflokksins. Við eigum ekki að halda uppi umræðu með þessum hætti. Við eigum að virða sjónarmið flokkanna. Ég virði sjónarmið sjálfstæðismanna á margan hátt. Þeir eru efins og mér finnst alveg guðvelkomið fyrir þá að vera efins í þessu máli. Við samfylkingarmenn erum líka efins. Við munum klárlega fella vondan samning. En við viljum sjá samninginn, hversu langt við komumst áleiðis. Við viljum ekki vera á eintali við sjálfa hræðslu okkar í þessu máli.