137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú á tímum gerast hlutirnir mjög hratt. Verið var að bera mér þær fréttir að úr utanríkisráðuneytinu kæmu þær upplýsingar að þessi skúffuskýrsla væri trúnaðarmál, sem er afar einkennilegt því að formaður Bændasamtakanna skrifar grein í Morgunblaðið í morgun þar sem hann vitnar í hana. Nú er utanríkisráðuneytið að koma með skýringar eftir á um að þessi skýrsla hafi verið leyndarmál og að það eigi ekki að gera hana opinbera. Hvað á að ofbjóða okkur inni á þingi og þjóðinni lengi í þessu máli?

Nú sér hæstv. utanríkisráðherra, sem lætur ekki svo lítið sem vera hér á Alþingi meðan verið er að ræða þessi mál … nú skal þetta heita trúnaðarmál. Nú á að redda þessum landbúnaðarkafla. Hér er mikið uppnám og þingmenn eru á hlaupum til að bregðast við upplýsingunum sem berast. Ég segi ekki annað en að það var eins gott að atkvæðagreiðslan fór ekki fram í gær, að þingmenn notuðu þann tíma sem þeir hafa til að ræða mál á Alþingi, úr því að mál sem voru rædd í gær eru orðin hundgömul þegar nýr dagur tekur við. En þetta er alveg í takt við það sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir og ég skil ekki — ég benti á það í gær og er óþreytandi að tala um það — hvernig Vinstri grænir geta látið bjóða sér þetta. Ég skil þetta ekki.

Nokkrir kjósendur Vinstri grænna eru í sambandi við mig, þeir segja mér að flokkurinn logi stafna á milli og ég er ekki hissa á því, sérstaklega í ljósi þess að Vinstri grænir sækja fylgi sitt mikið út á landsbyggðina og til bænda. Við skulum átta okkur á því. Hér eru málin öll í uppnámi.

Mig langar til að hnykkja aðeins á, og spyrja um traust á utanríkisráðherra. Samfylkingin og utanríkisráðherra höfðu svo mikið traust þegar bankarnir hrundu (Forseti hringir.) og út af því kom traustspurningin. Ég vil með skírskotun í það spyrja að … ég spyr að því á ný.