137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:22]
Horfa

Þráinn Bertelsson (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Bjarna Benediktssyni var tíðrætt um orðið sérstakur, sérstakar undanþágur sem hann spurði hvort ég æli í brjósti mér von um að kæmu út úr viðræðum við Evrópusambandið. Ég el ekki í brjósti mér neina sérstaka von um að einhverjar sérstakar undanþágur og sérstök skilyrði komi út úr þessum viðræðum. Við Íslendingar erum ekkert sérstök þjóð. Við erum venjuleg þjóð í venjulegum heimi. Ég reikna með því að í aðildarviðræðum verði tekið eðlilegt tillit til eðlilegra sjónarmiða okkar. En ég deili ekki þeirri bjartsýni eða öllu heldur frekju sem ég hef heyrt í ræðum þingmanna sem sjá Evrópusambandið með glýju í augum að allar dyr þarna verði opnaðar fyrir okkur (Forseti hringir.) eins og frelsarinn sjálfur hafi birst Evrópusambandinu þegar við komum. Ég held að við fáum engan sérstakan díl.