137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:53]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil kannski fá skýrari svör hjá hv. þm. Magnúsi Orra Schram um skipan stjórnarinnar því að hv. þingmaður sagði áðan að ef hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. viðskiptaráðherra og Seðlabanki Íslands mundu skipa þessa þriggja manna stjórn yrði það forsætisráðherra þjóðarinnar sem yrði ábyrgur fyrir því. Ef þeir aðilar sem þessir tveir ráðherrar og Seðlabankinn skipuðu, gerðu eitthvað af sér væri það forsætisráðherra þjóðarinnar sem ætti væntanlega að segja af sér. Hvernig stenst það? Forsætisráðherra kemur þar hvergi nærri. Fjármálaráðherra hefði getað skipað stjórn þessarar bankaumsýslu og að sjálfsögðu ber fjármálaráðherrann ábyrgð á því hvað formaður bankasýslu ríkisins gerir en ekki hæstv. forsætisráðherra. Mér er því alveg fyrirmunað að skilja hvernig hv. þingmaður getur komist að því að annar ráðherra, forsætisráðherrann, eigi að bera ábyrgð á því sem fulltrúi fjármálaráðherrans gerði í viðkomandi stjórn.

Í öðru lagi saknaði ég þess frá þingmanni Samfylkingarinnar í þessari umræðu hvaða leiðir og hvaða sýn hann hefði í því að spara í yfirstjórn fjármálastarfsemi hins opinbera. Komið hefur á daginn að á fimm ára tímabili mun starfsemi þessarar stofnunar kosta 400 millj. kr. Ég benti á að með því að fækka tveimur ráðherrum, vegna þess að þessi ríkisstjórn fjölgaði um tvo ráðherra í upphafi starfa sinna, mætti spara um 80–100 millj. á ári með slíkum aðgerðum. Á sama tíma hefur ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar skorið niður framlög til námsmanna um 1.200 millj., til aldraðra og öryrkja um 3.800 millj. Er óeðlilegt að við spyrjum forustumenn ríkisstjórnarinnar að því ef við horfum til útgjaldauka til þessara málaflokka, þ.e. til ríkisstjórnarheimilisins og yfirstjórnar fjármálakerfisins, hvort ekki standi til að taka eitthvað til á þeim (Forseti hringir.) bænum líka frekar en láta allt þetta bitna (Forseti hringir.) á öldruðum og öryrkjum, frú forseti?