137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[15:58]
Horfa

Frsm. minni hluta viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það má hrósa hv. þm. Magnúsi Orra Schram, varaformanni viðskiptanefndar, fyrir að láta svo lítið að taka þátt í þessari umræðu og mættu aðrir stjórnarþingmenn taka það sér til fyrirmyndar. Hv. þingmaður reynir að verja þetta mál og ég held að þegar við hlustum á hann áttum við okkur á því að hann hefur ekki góðan málstað að verja. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gekk mjög eftir rökum fyrir því í andsvörum áðan af hverju hæstv. fjármálaráðherra ætti að skipa þessa stjórn einn. Hann taldi að það væri afskaplega miklu valdi komið fyrir á hendi hjá einum ráðherra og ef ég skil hv. þm. Magnús Orra Schram rétt er hann ekki sammála því og telur þetta vera skynsamlegt fyrirkomulag, en vítin eru til að varast þau.

Hvað gerði hæstv. fjármálaráðherra þegar hann tók við? Tók hann sig ekki til og skipti út samninganefndinni og setti sitt fólk inn? Formaður viðskiptanefndar, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir, ætti kannski að einbeita sér að því að tala héðan úr ræðustól og kannski að minnka aðeins að kalla fram í en hv. þingmaður, formaður viðskiptanefndar, er ekki til í að taka þátt í umræðunni úr ræðustól heldur frekar utan úr sal. En ég held að það sé ekki hægt að vera með pólitískari tilnefningar en hæstv. fjármálaráðherra var með. Telja menn að það sé mögulegt? (ÁI: Baldur Guðlaugsson út.) Nú fer virkilega um hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, ég kom augljóslega við mjög viðkvæman punkt, hún ætlar að kalla fram í en ekki að taka þátt í umræðunni. Hún er ekki búin að koma sér á mælendaskrá enn þá (Gripið fram í.) en muldrar úti í sal í staðinn og er það auðvitað val hv. þingmanns að gera það. En er mögulegt að vera með pólitískari tilnefningar en voru í þessa mikilvægu samninganefnd? Hverja setur hæstv. fjármálaráðherra í samninganefndina? Hv. þingmaður setur pólitískan læriföður sinn, fyrrverandi formann Alþýðubandalagsins, Svavar Gestsson, og núverandi pólitískan aðstoðarmann sinn og skoðanabróður hans og Svavars, Indriða H. Þorláksson. Eins og við vitum öll er búin að vera umræða í margar vikur og mánuði um Icesave og ég hef ekki heyrt einn einasta mann, ekki einn einasta málsmetandi aðila halda því fram að þessar tilnefningar hafi verið faglegar eða að þarna hafi menn verið kallaðir til sem þeir aðilar sem hefðu mikla reynslu á þessu sviði, engan. Þetta eru eins pólitískar tilnefningar og þær geta orðið. Svavar Gestsson, pólitískur lærifaðir hæstv. fjármálaráðherra og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins og ráðherra í nokkrum vinstri stjórnum, og pólitískur aðstoðarmaður hæstv. fjármálaráðherra, Indriði H. Þorláksson, sem hefur farið mikinn bæði í sínu embætti og í öðrum embættum og tjáð sínar pólitísku skoðanir sem eru alveg í anda þess sem er lengst til vinstri á Íslandi í dag. Hv. þm. Magnús Orri Schram er algerlega sáttur við að fjármálaráðherra hafi þessi völd og að hann muni einn skipa stjórn þessarar bankasýslu sem verður, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á, væntanlega valdamesta stofnun ríkisins þegar hún verður sett á laggirnar þrátt fyrir að hún muni einungis sjá um einn banka. Það er mjög athyglisvert og ég vona að hv. þingmaður hv. þm. Magnús Orri Schram svari því, ég held að það sé mjög mikilvægt að fólk fái svör við þessu: Er það þannig núna að hæstv. fjármálaráðherra reki bankana? Nú talar meiri hlutinn fyrir því og segir að hann vilji ekki að þetta sé á horni skrifborðs fjármálaráðherrans. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að núna hafi hæstv. fjármálaráðherra mikil pólitísk afskipti af bönkunum, ef eitthvað er að marka þessa röksemdafærslu meiri hlutans.

Hér hafa helstu rök stjórnarmeirihlutans hvað eftir annað verið þau að koma þessu frá skrifborðshorni hæstv. fjármálaráðherra. Það er þá líka mikilvægt að fá að vita um það vegna þess að það eru ekki aðeins fleiri ríkisfyrirtæki sem eru undir forræði fjármálaráðherra, það eru engin smáríkisfyrirtæki. Ég tek Landsvirkjun sem dæmi. Við sáum í umræðu í dag að hér kom stjórnarþingmaður, hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og fór yfir það að hún teldi, ef ég skildi hv. þingmann rétt, að Matvælastofnun ætti ekki að fara strax undir fjármálaráðherra en það virðist almennt vera stefnan að hin ýmsu fyrirtæki fari undir forræði fjármálaráðherra. Og nú held ég að allir séu sammála um það — eða við skulum vona að við séum ekki með mörg ríkisfyrirtæki og vonandi ekki neitt sem engin þörf er á. Við skulum vona að hér sé um mjög mikilvægar stofnanir og fyrirtæki að ræða en ég tel það vera mjög brýnt að meiri hlutinn upplýsi hér hvort hæstv. fjármálaráðherra stýri fjármálastofnunum í landinu pólitískt í dag því að það má skilja það þannig. (BJJ: Það er enginn að hlusta á þig, hv. þingmaður.) Virðulegi forseti. Hér bendir hv. þm. Birkir Jón Jónsson mér á hið augljósa, að forsvarsmenn stjórnarinnar hafa hlaupið úr salnum. (BJJ: Þarna kom einn inn.) En að vísu, ég veit ekki hvort það hefur eitthvað með þessi orð mín að gera eða hvað það var, fjölgaði nokkuð hratt einmitt núna og er það vel, skal það tekið fram í ræðu. Ég vonast til þess (Gripið fram í.) og fer fram á það, að öllu gamni slepptu, að hv. þingmenn upplýsi um eftirfarandi: Er það þannig að fjármálaráðherra reki þessi fyrirtæki, sé með pólitísk afskipti af þessum fyrirtækjum, jafnt fjármálafyrirtækjum sem og öðrum? Ef menn vita það ekki þá eru hin ýmsu fyrirtæki og stofnanir undir ráðuneytum í dag. Ég vona að ráðherrar séu ekki almennt að skipta sér af daglegum rekstri, að koma inn í ákvarðanatöku þar.

Ég var heilbrigðisráðherra og þar voru stofnanir eða kerfi, umfang upp á hundruð milljarða kr. Ég var þó ekki að skipta mér af daglegum rekstri eða hafa pólitísk afskipti af þessum stofnunum. Það hvarflaði ekki að mér. Það eru auðvitað ákveðin atriði sem ráðherra þarf að koma að, eðli málsins samkvæmt, og ber pólitíska ábyrgð á þessu en hér koma þingmenn meiri hlutans fram og segja hvað eftir annað að það verði að koma þessu frá skrifborðshorni fjármálaráðherra. Hv. samþingmaður Magnús Orri Schram fór hér yfir þetta og það er mikilvægt að hann upplýsi okkur hvort núverandi hæstv. fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon sé með pólitísk afskipti af fjármálastofnunum. Það er mjög mikilvægt að það komi fram. Ef menn telja það mikla hættu þrátt fyrir bankaráð, sem eiga að bera ábyrgð á rekstri bankanna og sjá um stefnumótun og annað slíkt, að fjármálaráðherra sé með beinum hætti að skipta sér af rekstri bankanna, hlýtur líka sú hætta að vera fyrir hendi með öll hin fyrirtækin og þá hljótum við að velta fyrir okkur: Eigum við von á fleiri sýslum? Er á leiðinni frumvarp um orkusýslu ríkisins? Er það kannski á leiðinni? Það er ekkert smáræði sem þar er undir. Nú ætla ég ekki að bera saman eða gefa því einkunn hvort sé mikilvægara, fjármálageirinn eða orkugeirinn. Hvort tveggja er gríðarlega mikilvægt. En ef ég tek eitthvað af handahófi, ef menn fletta dagblöðunum getum við séð að það eru gríðarlega mörg fyrirtæki og stofnanir sem heyra undir hina ýmsu ráðherra. Ég held að ég hafi skilið hv. þm. Magnús Orra Schram alveg rétt þegar hann taldi að til að hafa þetta skýrara ættu fyrirtæki almennt að heyra undir hæstv. fjármálaráðherra eða undir fjármálaráðuneytið, og fyrir því geta verið rök. En það verður að upplýsa um hvort rótin að þessu máli liggur í því að Samfylkingin telji að hæstv. fjármálaráðherra sé með mikil pólitísk afskipti af fjármálastofnunum. Það er kannski eitthvert vandamál sem er í gangi núna og hefur ekki verið upplýst og er mjög mikilvægt að upplýsa það. Við vitum auðvitað að það er gríðarlegur vandi á stjórnarheimilinu. Það líður vart sá dagur að ekki komi upp einhver ágreiningur sem blossar upp í fjölmiðlum og það fer ekki fram hjá neinum landsmanni að þremur mánuðum eftir kosningar hangir líf stjórnarinnar á bláþræði. Kannski er þarna um eitthvert ágreiningsmál innan ríkisstjórnarflokkanna sem ekki hefur verið upplýst, að menn séu að koma í veg fyrir að hæstv. fjármálaráðherra haldi áfram pólitískum afskiptum af fjármálafyrirtækjum. Það væri mjög æskilegt að það kæmi fram í þessu stóra og mikilvæga máli. Hv. þingmaður bar það af sér og vildi ekki taka þátt í þeirri umræðu að hér væri um valdhroka að ræða hjá meiri hluta viðskiptanefndar. Ég stend við þær fullyrðingar hvar sem er og hvenær sem er og hef ég nokkuð góða reynslu af því að vera bæði í minni hluta og meiri hluta í nefndum. Kannski er ákveðinn hluti hrokans sá að hér sjá þingmenn stjórnarliðsins í þessu stóra og mikilvæga máli ekki einu sinni ástæðu til að taka á því í umræðunni. Ég hef spurt ákveðinna spurninga af góðri ástæðu og ég sé fram á að hv. þingmenn meiri hlutans svari þeim því að af orðum þeirra er ekki að skilja annað en að núna sé þetta, svo ég vitni beint, virðulegi forseti, með leyfi forseta, „á skrifborðshorni fjármálaráðherra“.