137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[16:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta viðskn. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mikill misskilningur af hálfu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar að sú sem hér stendur hafi með einhverjum hætti verið að hrauna yfir Samfylkinguna eða einstaka þingmenn hennar. Ég vil vegna þessa misskilnings árétta það sem ég sagði. Ég tel að Framsóknarflokkurinn, hv. þm. Birkir Jón Jónsson, og Sjálfstæðisflokkurinn, hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, beri ábyrgð á einkavinavæðingu bankanna sem var upphafið og leiddi til þess hruns sem við erum að reyna að vinna úr. Það var það sem ég sagði og ég stend við það.

Hvað varðar þær spurningar sem hér hafa verið bornar fram vil ég fullyrða, hv. þingmaður, að þeim hefur verið svarað mjög vel. Hv. varaformaður viðskiptanefndar, Magnús Orri Schram, hefur haldið ræðu, komið í andsvör og svarað andsvörum og svarað í einu og öllu því sem spurt hefur verið um. Ég hef ekki séð ástæðu til að orðlengja þá umræðu vegna þess, eins og hv. þingmaður benti á, að þá erum við við 3. umr. og við erum búin að fara mjög ítarlega yfir þetta mál. Það var tekið til umræðu í viðskiptanefnd á milli 2. og 3. umr. þannig að það er mitt mat að spurningum sem varða efni málsins hafi verið vel svarað að öllu leyti í dag.