137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kjararáð o.fl.

114. mál
[16:44]
Horfa

Frsm. efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Hér er til 3. umr. frumvarp um kjararáð sem var hér til nokkuð ítarlegrar umræðu fyrir nokkrum dögum og síðan hjá nefnd aftur milli 2. og 3. umr. í framhaldi af umræðum hér og vegna óska einstakra þingmanna þar um. Frumvarpið tekur ekki breytingum á milli 2. og 3. umr. Það gerir í grófum dráttum ráð fyrir því að laun forsætisráðherra verði hæstu laun eða það viðmið sem haft verður við ákvörðun um heilsdags dagvinnulaun forstöðumanna ríkisfyrirtækja og stofnana. Það er óbreytt. Þar er sett það meginviðmið sem áður hefur verið fjallað um. Þó að það sé sett sem meginviðmið útilokar nefndin ekki með öllu að einstök tilfelli geti kallað á einhverja álagspunkta en slíkir punktar hafa verið fáir og varða óverulegar fjárhæðir. Auðvitað getur verið um einhverjar kostnaðargreiðslur utan heildarlauna manna sem varða þá útlagðan kostnað eða aðra slíka hluti en það er skilningur meiri hluta nefndarinnar að þetta sé viðmiðið og meginreglan sem kjararáð á að hafa til hliðsjónar í sínum ákvörðunum og gerir engar tillögur um breytingar á milli umræðna þar um. En sjónarmið voru um að ganga ekki lengra í því að takmarka þetta við dagvinnulaun heldur heildargreiðslur. Í ljósi aðstæðna er ekki talið tilefni til að ganga svo langt og að skemmra ætti að ganga í því að setja ekki þetta viðmið um að forsætisráðherra eigi í „prinsippinu“ að vera hæstlaunaði yfirmaðurinn í ríkiskerfinu. Undirmenn hans eigi ekki að vera á hærri launum en hann sjálfur en það er út af fyrir sig viðmið sem hefur oft komið til umræðu á hinum pólitíska vettvangi.

Að lokinni þessari umræðu leggur meiri hluti nefndarinnar til eftir sem áður að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem á þeim urðu við 2. umr.