138. löggjafarþing — 11. fundur,  20. okt. 2009.

afturköllun á ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínu.

11. mál
[18:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Ef ég reyni að taka saman innihald ræðunnar er hann mjög hlynntur því að Suðvesturlína verði reist til þess að styrkja atvinnulíf á Suðurnesjum og vill að álverið rísi í Helguvík og er ekki alveg par sáttur við hvernig framgangur mála hefur verið.

Hv. þingmaður ræddi líka mikið um fjárfestingu og möguleika orkufyrirtækjanna til að fjárfesta. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því innan ríkisstjórnarinnar að farin verði sú leið að fara í verkefnaframkvæmdir í orkugeiranum, þ.e. að fjárfestar muni koma með orkufyrirtækjunum í nauðsynlegar framkvæmdir því að það er nokkuð ljóst að fyrirtækin munu eiga erfitt með að gera þetta sjálf. Þess vegna er ágætt að fá aðeins sýn á þetta því að við þurfum vitanlega erlenda fjárfestingu inn í landið og við þurfum að fjárfesta í þessum mannvirkjum til þess að geta haldið uppi atvinnu.

Mér þótti gott að heyra að fjárfestingarsamningar séu alveg á næsta leiti varðandi gagnaver o.fl. Mig langar að spyrja þingmanninn hvort hann hafi engar áhyggjur af því að boðuð skattbreyting í fjárlagafrumvarpinu, þ.e. orkuskattar, hafi áhrif á þessa fjárfestingarsamninga og hvort hann telji þá um leið að sú tímasetning sem hann nefndi sé raunveruleg eða gangi upp. Eftir því sem við heyrum hér, alla vega sumir þingmenn, er veruleg óvissa um þessa fjárfestingarsamninga út af boðuðum orkusköttum. (Forseti hringir.) Það er sem sagt varðandi verkefnasamningana og fjárfestingarsamningana.