138. löggjafarþing — 22. fundur,  10. nóv. 2009.

samningsveð.

7. mál
[17:40]
Horfa

Flm. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um samningsveð, nr. 75/1997. Samkvæmt frumvarpinu bætast við tvær nýjar málsgreinar við 19. gr. laganna og hljóða þær í stuttu máli þannig:

Lánveitanda, sem veitir lántaka lán gegn veði í fasteign sem er ætluð til búsetu, er ekki heimilt að leita fullnustu fyrir kröfu sinni í öðrum verðmætum lántaka en veðinu nema krafa hafi orðið til vegna saknæmra athafna eða meintra brota lántaka á lánareglum. Krafa lánveitanda á lántaka skal falla niður ef andvirði veðsins sem fæst við nauðungarsölu nægir ekki til greiðslu hennar.

Í 2. mgr. er lagt til að lögin verði afturvirk.

Staða margra íslenskra heimila hefur versnað til muna í kjölfar bankahrunsins sem haft hefur í för með sér hækkun skulda, rýrnun eigna, minni tekjur og skertan lánsfjáraðgang margra heimila. Fasteignaveðlán vega almennt þyngst í skuldum heimilanna. Við núverandi aðstæður er hætta á að kröfuhafar sækist eftir auknum tryggingum eða geri fjárnám í óveðsettum eignum sem ekki getur talist sanngjarnt þar sem mörg heimili hefðu staðið við skuldbindingar sínar við eðlilegri kringumstæður.

Í frumvarpinu er lagt til að fasteignaveðlán geti ekki orðið grundvöllur aðfarar í öðrum eignum lántaka en þeim sem veðréttindin taka til en í því felst frávik frá þeirri meginreglu íslensks kröfuréttar að skuldari ábyrgist efndir fjárkröfu með öllum eignum sínum. Jafnframt á lántaki að vera laus undan persónulegri ábyrgð á greiðslu lánsins ef veðið hrekkur ekki til greiðslu þess. Ekki skiptir máli hvort veðsali er lántaki eða þriðji maður. Þar sem frumvarpið mælir fyrir um frávik frá umræddri meginreglu kröfuréttar er ekki um eiginlega afskrift að ræða sem leiðir til skattskyldu.

Frumvarpið tekur til lána sem veitt eru með hvers konar veði í fasteign ætlaðri til búsetu og óháð því hvernig andvirði lánsins er ráðstafað.

Eins og áður segir er frumvarpið lagt fram til að styrkja stöðu skuldara sem hafa í kjölfar bankahrunsins orðið fyrir verulega neikvæðum áhrifum gengis og verðtryggingar.

Markmiðum frumvarpsins verður ekki náð nema það verði látið taka til samninga sem gerðir hafa verið fyrir gildistöku laganna og óháð því hvort lánastofnun lýtur eignarhaldi hins opinbera eða einkaaðila. Með hliðsjón af lögum nr. 125/2008, er tóku gildi 7. október í fyrra, er ekki gert ráð fyrir að frumvarpið sé í andstöðu við eignarréttarákvæði stjórnarskrár þar sem stærstu lánastofnanirnar hafa verið á forræði ríkisins síðan bankahrunið varð auk þess sem umrædd lög heimila Íbúðalánasjóði að yfirtaka skuldabréf fjármálafyrirtækja sem tryggð eru með veði í íbúðarhúsnæði.

Frumvarpið gerir eins og áður segir ráð fyrir að krafa lánveitanda sem glatað hefur veðtryggingu við nauðungarsölu falli niður. Til lengri tíma litið á frumvarpið að stuðla að vandaðri lánastarfsemi og hvetja til þess að lánveitingar taki mið af greiðslugetu lántaka.

Aðrir flutningsmenn á frumvarpinu eru Ásmundur Einar Daðason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Þór Saari, Birgitta Jónsdóttir, Þráinn Bertelsson og Eygló Harðardóttir.

Frú forseti. Ég vil ítreka að frumvarpið felur í sér tvenns konar réttarbót fyrir skuldara. Í fyrsta lagi ábyrgist samkvæmt þessu frumvarpi skuldari ekki endurfjárkröfu með öllum eignum sínum. Í öðru lagi er skuldari samkvæmt þessu frumvarpi laus undan eftirstöðvum skuldar ef söluvirði eignarinnar við nauðungarsölu dugar ekki fyrir skuldinni.

Þetta frumvarp var flutt í fyrsta sinn á sumarþingi og vakti töluverða athygli í fjölmiðlum og á meðal almennings. Ég held ég geti fullyrt að margir bíði þess óþreyjufullir að frumvarpið verði samþykkt og að Alþingi sýni þannig í verki að ætlunin sé að bæta réttarstöðu skuldara gagnvart kröfuhöfum.

Frú forseti. Reynsla annarra þjóða sýnir að þeir sem helst nýta sér þann rétt sem frumvarpið veitir skuldurum eru þeir sem hafa lítið sem ekkert greitt inn á höfuðstól lánsins. Það er fólk sem hefur nýlega tekið lán með veði í fasteign. Með öðrum orðum mun frumvarpið fyrst og fremst gagnast ungu fólki sem tók lán á síðustu árum og veðsetti sig þannig að um var að ræða 100% lán fyrir fasteigninni. Aðrir hafa yfirleitt ekki beinan hag af því að reyna að nýta sér þetta úrræði. Þeir sem hafa greitt í einhvern tíma af fasteignalánum sínum og þannig safnað upp ákveðnum höfuðstól hafa meiri hag af því að leita annarra úrræða, t.d. að skoða hvort ekki sé betra að fara í gegnum almenna greiðslujöfnun eða að sækja um sérstaka skuldaaðlögun.

Frú forseti. Það er afar mikilvægt að þetta frumvarp verði afgreitt sem lög frá Alþingi, ekki síst í ljósi þess að almenna greiðslujöfnunin mun leiða til þess að margir skuldarar sitja uppi með yfirveðsettar eignir eða eignir sem eru með skuldir langt umfram raunvirði þeirra. Frumvarpið mun því gefa þessu fólki val þegar fram í sækir að hætta að greiða af skuldunum og skila lyklunum til viðkomandi lánastofnunar.

Sértæk skuldaaðlögun gerir ráð fyrir að skuldir verði aðlagaðar að raunvirði eigna og greiðslugetu. Í sértækri skuldaaðlögun er skuldari ekki spurður hvort hann eða hún vilji halda áfram að greiða af skuldunum heldur eru skuldirnar bara aðlagaðar að bæði raunvirði eigna og greiðslugetu. Þetta frumvarp mun hins vegar gera skuldurum kleift á að velja milli þess að fara í greiðsluaðlögun eða að skila inn lyklunum og byrja nýtt líf með hreint borð.

Frú forseti. Frumvarpið styður við almenna greiðslujöfnun og sérstaka greiðsluaðlögun með því að bæta réttarstöðu skuldara, ekki síst þeirra sem komu nýir út á fasteignamarkaðinn á undanförnum árum. Það er að mínu mati sanngjarnt að aðstoða ungt fólk við að losna undan skuldabyrði sem það ræður ekki við. Ég hvet því til þess að þetta frumvarp fái vandaða umfjöllun hjá allsherjarnefnd.