138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

yfirlýsingar breskra og hollenskra ráðherra.

[10:47]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil gjarnan fá að spyrja út í þær yfirlýsingar sem komið hafa bæði frá fjármálaráðherra Breta og fjármálaráðherra Hollendinga varðandi Icesave-málið sem er til umræðu í þinginu núna. Komið hefur fram að Alistair Darling segir að hann muni ekki ábyrgjast innstæður sem var stofnað til utan yfirráðasvæðis breska fjármálaeftirlitsins og því getum við Íslendingar spurt okkur hvort hann telji að það gildi aðrar reglur um Íslendinga en Breta þegar kemur að innstæðutryggingum.

Wouter Bos, sem er fjármálaráðherra Hollands, hefur líka sagt í ræðu að evrópska innstæðutryggingarkerfið væri ekki hannað til að takast á við kerfishrun heldur aðeins fall einstakra banka. Þetta er einmitt sá málflutningur sem við Íslendingar höfum haft uppi og sameinast um, allir flokkar, að evrópska tryggingarkerfið taki ekki á kerfishruni, einungis á hruni einstakra banka, nákvæmlega eins og fjármálaráðherra Hollendinga sagði. Það er eins og þegar við tryggjum hús, ef eitt hús brennur á að bæta það, en ef hvert einasta hús í landinu brennur hlýtur eitthvert annað kerfi að taka við.

Þetta virðast þessir ráðherrar skynja og því vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra, af því að stjórnvöld hafa legið undir gagnrýni um að hafa ekki komið málflutningi okkar nógu beint á framfæri, milliliðalaust, við viðsemjendur okkar: Kemur til greina að beita forsætisráðuneytinu og utanríkisþjónustunni þannig að við náum fundi þar sem hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra mundu, áður en Icesave-umræðunni lýkur, þ.e. fyrir jól, fara og hitta forsætisráðherra og fjármálaráðherra Breta og Hollendinga til þess að gera úrslitatilraun um Icesave-málið? Þetta er allt of stórt mál til þess að reyna ekki að fá fund með þessum mönnum.

Við höfum tíma til þess, við getum tekið önnur mál hér inn í þingið á meðan, t.d. skattamál. Ég á mér þá ósk að sjá (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra ræða milliliðalaust við þetta fólk og útskýra stöðu okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)