138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

fjáraukalög 2009.

10. mál
[22:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gætir einhvers misskilnings á milli okkar varðandi þetta sem færist yfir um áramót, ég var að tala um milli 2008 og 2009 af því að við frystum það sem þar var inni. Sú hefð hefur verið að menn gátu fært með sér upphæðir nánast ótakmarkað eða safnað inneignum og menn áttu inneignir upp á um 20–30 milljarða og það var stoppað að menn gætu nýtt það meðan við vorum að reyna að skipuleggja hagræðinguna hjá einstökum stofnunum. Það er tillaga núna inn í umfjöllunina í heild að menn fái að fara með yfir áramót um 4% en það þarf að festa þá reglu í sessi eða ákveða einhverja aðra reglu. Það hafa verið skoðanir í gangi um hvað megi fara með yfir en það er hægt að fullvissa menn um að þeir verði ekki látnir gjalda þess ef þeir gæta hagræðis innan ársins.

Hvað varðar hin málin tvö um tónlistarhúsið þá var það ein af þeim fyrirspurnum sem fóru til Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga á þessu ári og það er komið ítarlegt svar varðandi þann þátt. Það hefur ekki verið gengið endanlega frá með hvaða hætti slík skuldbinding er bókfærð í fjárlögum en varðandi Icesave þá er ekki búið að ganga frá samningum þar vegna þess að fyrirvararnir og lögin sem voru samþykkt á sínum tíma voru samþykkt með fyrirvara um að það væri afgreitt af Bretum og Hollendingum að þeir staðfestu þá. Öðruvísi gengur ríkisábyrgðin ekki í gildi. Það er hægt að upplýsa það hér og það hefur verið upplýst í fjárlaganefnd að það liggja fyrir hugmyndir um með hvaða hætti það eigi að bóka þessa skuldbindingu og það mun fjárlaganefnd að sjálfsögðu fara yfir, en þar skilst mér að hafi komið að bæði Ríkisendurskoðun, fjármálaráðuneytið og gott ef einhverjir fleiri voru ekki með áætlanir um hvernig ætti að bókfæra Icesave. En það segir sig sjálft að hvort tveggja tónlistarhúsið og Icesave þarf að sjálfsögðu að færa inn í fjáraukann þannig að það komi a.m.k. fram hvaða skuldbindingar við erum að taka á okkur þó að ekki verði stofnað til útgjalda á þessu ári umfram það sem er í fjárlögum.