138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[12:50]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er náttúrlega ævintýralegt verklag á Alþingi að ætla að breyta skattalöggjöfinni á nokkrum dögum nú fyrir jól en við erum orðin vön því í stjórnarandstöðunni að ekkert samráð er haft við okkur þegar kemur að veigamiklum málum.

Alþýðusamband Íslands hefur mótmælt þessum áformum ríkisstjórnarinnar harðlega og varaforseti sambandsins, Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, sagði að það samráðsleysi sem hefði verið viðhaft í tengslum við þessar breytingar væri einsdæmi, auk þess sem Alþýðusambandið hefur bent á að þær skattahækkanir sem ríkisstjórnin er að fara fram með séu mun meiri gagnvart heimilunum en stöðugleikasáttmálinn gerir ráð fyrir. Ég vil því spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann telji að heimilin geti staðið undir þessum skattahækkunum, hvort einhver úttekt hafi verið gerð á því af hálfu hæstv. ráðherra.