138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[12:23]
Horfa

Frsm. viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti hv. viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breyting á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, nr. 99/1999, með síðari breytingum.

Efnahags- og viðskiptaráðherra leggur árlega fyrir Alþingi frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Til grundvallar frumvarpinu liggur skýrsla Fjármálaeftirlitsins um áætlaðan rekstrarkostnað næsta árs, athugun efnahags- og viðskiptaráðherra á henni og álit samráðsnefndar eftirlitsskyldra aðila, sbr. 2. gr. laganna.

Í 2. gr. frumvarpsins eru lögð til breytt álagningarhlutföll á einstakar tegundir eftirlitsskyldra aðila.

Á fundi nefndarinnar lagði Fjármálaeftirlitið fram gögn um endurmat áætlaðs kostnaðar eftirlitsins á árinu 2010 sem skýrist af óförum á fjármálamarkaði undanfarið ár. Fjármálaeftirlitið hefur þörf fyrir fleiri starfsmenn til að sinna brýnum endurreisnar- og eftirlitsverkefnum. Þá hefur rannsóknarvinna tengd bankahruninu reynst meiri en gert hafði verið ráð fyrir. Samkvæmt nýrri endurskoðaðri áætlun Fjármálaeftirlitsins er samtala gjaldaliða án úrskurðarnefnda 1.193 millj. kr. á árinu 2010 en hún var 1.111 millj. kr. í upphaflegri áætlun. Hækkun frá fyrri áætlun er því 7,4% og heildarhækkunin frá endurskoðaðri áætlun ársins 2009 er 25,1%. Í áður framlagðri rekstraráætlun fyrir árið 2010 var gert ráð fyrir að eftirlitsgjaldið á því ári yrði 1.022 millj. kr. Í nýrri áætlun er hins vegar gert ráð fyrir að eftirlitsgjaldið verði 1.104 millj. kr. sem er hækkun um 8% og heildarhækkun frá endurskoðaðri áætlun ársins 2009 er 44%.

Um það var rætt á fundum nefndarinnar að gera yrði greinarmun á starfsemi eftirlitsins eftir því annars vegar hvort litið væri eftir starfsemi fjármálafyrirtækis sem er starfandi og hins vegar hvort um væri að ræða rannsókn vegna bankahrunsins. Það er álitamál hvort starfandi fjármálafyrirtæki eigi að standa undir kostnaði við rannsóknir á föllnum fjármálafyrirtækjum. Nefndin telur að svo eigi ekki að vera og leggur til hækkun á fastagjaldi gildandi laga sem er óbreytt í 9. mgr. 2. gr. frumvarpsins. Leggur nefndin til að fjármálafyrirtæki sem er stýrt af skilanefnd, slitastjórn eða bráðabirgðastjórn greiði hærra gjald en samkvæmt gildandi lögum. Ef um er að ræða viðskiptabanka verði fastagjaldið 21.000.000 kr., aðrar lánastofnanir 11.000.000 kr. og önnur fjármálafyrirtæki 5.000.000 kr. Breytingartillagan miðar að því að tryggja sanngjarna fjármögnun á kostnaði Fjármálaeftirlitsins við rannsóknir á föllnum fjármálafyrirtækjum en fram hefur komið að kostnaðurinn við þessar rannsóknir er mun meiri en þær 4 millj. kr. sem kveðið er á um í gildandi lögum.

Þá leggur nefndin til að við frumvarpið bætist ný grein sem mæli fyrir um breytingu á 6. gr. laganna. Breytingin miðar að því að greiðsla eftirlitsgjalds vegna þeirra fyrirtækja sem eru undir stjórn skilanefnda, slitastjórna eða bráðabirgðastjórna dreifist ekki líkt og hjá öðrum fjármálafyrirtækjum. Ástæðan er sú að þessum föllnu fjármálafyrirtækjum getur verið slitið á miðju árinu. Hin fyrrnefndu eru ekki í hefðbundnum rekstri og er tekjuinnstreymi þeirra því ekki sambærilegt og hjá hinum síðarnefndu.

Við umfjöllun um málið í nefndinni komu fram sjónarmið um það hvort gera ætti greinarmun á álagningarhlutföllum vátryggingafélaga eftir því hvort um er að ræða frumtryggingu eða endurtryggingu. Með öðrum orðum var talið að greiða ætti lægra gjald vegna endurtryggingastarfsemi. Nefndin hefur til umfjöllunar frumvarp til laga um vátryggingastarfsemi. Í því frumvarpi er m.a. er lagt til að innleidd verði EB-tilskipun um endurtryggingar sem kveður á um að eftirlit með endurtryggingastarfsemi á EES-svæðinu verði sambærilegt og með frumtryggingastarfsemi. Því telur nefndin ekki rök fyrir því að breyta ákvæðinu á framangreindan hátt.

Mörg þeirra verkefna sem Fjármálaeftirlitið glímir við um þessar mundir eru tímabundin og þar sem gera má ráð fyrir að nýja fjármálakerfið verði umfangsminna má búast við að störf Fjármálaeftirlitsins taki mið af því.

Frú forseti. Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nefndarálitið rita sú sem hér stendur, Magnús Orri Schram, Guðlaugur Þór Þórðarson, Árni Þór Sigurðsson, Eygló Harðardóttir, Ragnheiður E. Árnadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Margrét Tryggvadóttir.