138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir fyrirspurnina. Hvað varðar að fara út í bæði skipulagsbreytingar og kerfisbreytingar á sama tíma þá lít ég ekki svo á að fyrirhugaðar skattbreytingar séu kerfisbreytingar heldur kannski bara skref í átt að kerfisbreytingu á skattkerfinu. Auk þess er jafnframt hægt að tala um að nauðsynlegt sé að fara í skipulagsbreytingar þegar miklar breytingar verða á skattkerfinu til þess einmitt að skattyfirvöld geti tekið á þeim breytingum á sem hagkvæmastan hátt. Eins og kemur fram í nefndarálitinu er talað um að þær skipulagsbreytingar sem mælt er fyrir um í frumvarpinu sem nú er til umræðu muni hafa mikil samlegðaráhrif sem birtist m.a. í samræmdri skattframkvæmd og sérhæfingu verkefna. Það er því skoðun mín að þessi skipulagsbreyting styrki hina svokölluðu kerfisbreytingu á skattkerfinu. Hvað varðar kvartanir ýmissa aðila, um að nú sé verið að fara í mjög flóknar skattbreytingar með litlum fyrirvara, þá er ég ekki sammála því. Meðan kerfið var einfalt og byggðist á einni skattprósentu greiddi ég t.d. alltaf eftiráskatt vegna þess að skatturinn hafði verið vanreiknaður. Þegar ég bjó úti í Svíþjóð, þar sem var fimm þrepa skattkerfi, tókst launakerfinu alltaf að reikna nákvæmlega út hvað mér bæri að greiða í skatt og ekki kom til eftirágreiðslu.