138. löggjafarþing — 49. fundur,  17. des. 2009.

tekjuskattur o.fl.

226. mál
[12:46]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Lilja Mósesdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson hefur beint a.m.k. þremur spurningum til mín. Hann spyr hvort ekki sé um kerfisbreytingu að ræða þegar innleidd eru þrjú skattþrep í stað þess að hafa bara eitt skattþrep. Þetta er vissulega mikil breyting en þar sem við, a.m.k. við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, lítum svo á þetta sé bara hluti af kerfisbreytingu sem er væntanleg á næstunni vil ég ekki beint tala um að skattbreytingarnar sem koma til framkvæmda um áramótin séu þessi kerfisbreyting. Sú breyting sem við mundum vilja sjá á skattkerfinu er að persónuaflslátturinn lækki og að við byrjum þá fyrr að skattleggja tekjur en með mun lægri prósentu en nú er gert og hefur verið gert. Ég er í raun að leggja til sams konar skattkerfi og er á Norðurlöndunum. Þær skattbreytingar sem koma til framkvæmda um áramótin eru þá liður í því að færa íslenska skattkerfið í átt að norrænu skattkerfi.

Hvað varðar það flækjustig sem bæði kerfisbreytingin svokallaða og þessi skipulagsbreyting munu fela í sér fyrir starfsmennina þá þýðir þetta auðvitað aukið álag til að byrja með en við skulum ekki gleyma því að starfsmenn eru oft tregir til að samþykkja breytingar á starfsumhverfi sínu. Það má heldur ekki gleyma því að skattkerfið hér notast við sameiginlegt tölvukerfi. Þetta er því í raun bara spurning um að færa verkefni í tölvukerfinu á milli staða.