138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:04]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og skattn. (Birkir Jón Jónsson) (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Þór Saari að það er alveg ófært að halda þingfund hér á meðan á fundi í fjárlaganefnd stendur. Ég vil reyndar vekja athygli á því að við höfum verið að halda fundi í efnahags- og skattanefnd á meðan á þingfundi hefur staðið en það hefur verið gert í samkomulagi við okkur í minni hlutanum, þ.e. í minni hluta efnahags- og skattanefndar. Nú virðist sem slíks samkomulags hafi ekki verið leitað í þessu efni. Því er einboðið að frú forseti fresti þessum fundi á meðan fjárlaganefnd lýkur störfum sínum þar sem ekki hefur verið gert samkomulag um það að fundi fjárlaganefndar skuli fram haldið á meðan á þingfundi stendur. Hér er greinilega verið að brjóta þingsköpin og það er alveg á hreinu að frú forseti verður nú tafarlaust að fresta þingfundi, og sérstaklega í ljósi þess hversu liðleg við höfum verið í stjórnarandstöðunni um meðferð mála fyrir jólahlé væri þetta algjörlega brot á því vinnulagi sem við höfum viðhaft að undanförnu.