138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[14:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Í ljósi svars hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar mundi ég telja að það ætti raunar að leggja fram breytingar á lögum, þ.e. að með öllum frumvörpum sem varða þess háttar hækkanir á vegum ríkisins væri sérstaklega reiknað út áhrifin á vísitölu neysluverðs af því að það er eitthvað sem hefur vantað mjög upp á þegar við þingmenn höfum verið að fara í gegnum ýmis mál.

Við lentum í því á sumarþinginu þegar verið var að leggja til hækkanir á bifreiðagjöldum og áfengis- og tóbaksgjöldum að menn sátu hérna með GSM-símana sína klukkan 10 og 11 að kvöldi og voru að reikna út áhrifin á lán heimilanna. Nú held ég að við höfum kannski haft aðeins meiri tíma þó að ekki hafi verið mikill tími til að vinna þetta mál, þá er samt sláandi að sjá að það er enn á ný einhver úti í bæ sem hefur vonandi haft betri tækni en GSM-síma til að reikna út hver kostnaðurinn við þetta er, og sláandi að hv. meiri hluti í efnahags- og skattanefnd telur þetta ekki merkilegra en svo að leggja hálfa setningu í nefndaráliti sínu um áhrifin á lán heimilanna.