138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni hlý orð í minn garð. Um séreignarsparnaðinn og þær aðgerðir er það að segja að það er rétt hjá honum að gott er að eiga það inni. Það er líka gott að eiga það inni á þeim árum sem nú fara í hönd vegna þess að við þurfum auðvitað að búast við því að tekjuáætlanirnar munu að sumu leyti ekki ganga fyllilega eftir og við þurfum að grípa til nýrra aðgerða. Eins mun þurfa að auka tekjur bæði á næsta ári og þar næsta ári og jafnvel árið þar á eftir. Séreignarsparnaðurinn er þó ekki af því umfangi að hann leysi allan okkar vanda. Hann nemur kannski um 50 milljörðum í einskiptistekjur og það er auðvitað mjög takmörkuð aðgerð til þess að mæta þeim mikla halla sem við erum með.

Það er hins vegar í besta falli broslegt að heyra hv. þingmann fjalla um þetta með þeim hætti að það sé sérstök hugsjón okkar að hækka skatta. Ég veit ekki betur en við höfum tekið þátt í því með hv. þingmanni ekki fyrir löngu síðan að lækka skatta. (Gripið fram í: Voruð þið í stjórn?) Við vorum í samstarfi og ég held að við séum nú sumpart að súpa seyðið af þeim aðgerðum vegna þess að í þeim hafi verið gengið of langt.

Hvað varðar flækjustig í skattkerfinu er það nú bara þannig að í tekjuskattamálinu sem verður hér til umfjöllunar síðar í dag erum við að innleiða þrepaskiptan tekjuskatt til þess að auka jöfnuð í samfélaginu. Ég held að það sé alveg skýrt að ein af mistökum undangenginna ára í skattamálum eru að hafa dregið of mikið úr áherslum á jöfnuð. Við eigum í framhaldinu að taka enn fleiri skref í því skyni, m.a. með endurskoðun á bótakerfinu í tengslum við þetta.