138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og skattn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég skal gangast við því að við erum með stighækkandi tekjuskatt núna, tveggja þrepa kerfi í raun. Hvað varðar séreignarsjóðina þá er þetta ofmat á tölum hjá hv. þingmanni. Ég hygg að það mundi aldrei takast samstaða um að skattleggja bundnu séreignina inni í þeim sjóðum og þá er talsvert minna út úr þessu að fá en hv. þingmaður nefndi.

Hv. þingmaður var hins vegar í mótsögn við sjálfan sig því hann staðfesti það sem ég gengst að sjálfsögðu við, að við í Samfylkingunni höfum ítrekað tekið þátt í því á undanförnum árum að styðja lækkun á sköttum. Það er okkur ekkert sérstakt hugðarefni að hækka skatta. Við höfum að vísu í þeim tilfellum lagt meiri áherslu á að persónuafslátturinn væri hækkaður fremur en hinar almennu prósentur og að matvöruverð væri lækkað fremur en almennt neysluverð. Það eru einfaldlega jafnaðarsjónarmið. Við stöndum því núna að skattahækkunum einvörðungu vegna þess að við erum knúin til þess. Við erum knúin til þess vegna þess að það er fullkomlega ábyrgðarlaust að ætla ekki að taka á hinum undirliggjandi þáttum í ríkisrekstrinum og þeim gríðarlega halla sem hér er en ætla bara að koma með hókus pókus hagfræði og töfra eitthvað einu sinni upp úr hattinum. (UBK: En að skera niður?) Hv. þingmaður kallar hér fram í: „En að skera niður?“ Jú, við tökum meira en helminginn af því sem við erum að brúa með því að skera niður en það er sannarlega líka erfitt og getur líka dýpkað kreppuna. Ég held þó að mikilvægast í þessu öllu saman sé að leitast við að gæta meðalhófs. Ég vona að við gerum það.