138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:15]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir að koma hér upp í andsvar við mig. Þetta er kannski það sem við stöndum frammi fyrir að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir eru ekki hugsaðar til enda.

Það er alveg hárrétt að þegar þetta ferli fer af stað er það skuldarinn sjálfur sem situr uppi með kostnaðinn en þetta sýnir líka hver forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar er. Það lítur út fyrir að þau skattafrumvörp sem liggja fyrir þinginu hafi verið unnin með þeim hætti að búið hafi verið til einhvers konar skjal og svo hafi eitthvert ferli farið af stað, einhverjar tölur á blaði, en ekki verið hugsað út í hvaða áhrif þetta hefði að lokum. Eins og kom t.d. fram í gær í umræðunni um auðlindagjöldin þá er þetta nánast hreinn landsbyggðarskattur og skattur á ferðaþjónustuna og Vinstri grænir ætla að gera ferðaþjónustu að þriðja hjólinu undir atvinnulífið.

Svona höfum við stjórnarandstaðan rakið mál eftir mál sem eru illa unnin og hálfheimskuleg. Að við skulum þurfa að standa hér í þinginu og ræða þetta því að þetta virðist allt saman vera byggt á sandi. Ekki er verið að hugsa um skuldugu fjölskyldurnar og heimilin í þeim skattafrumvörpum sem liggja hér fyrir, svo mikið er víst, því að svo mikil aukagjöld eru lögð á þessa aðila og erlendu bönkunum eru færðir 11–12 milljarðar bara í verðbætur (Forseti hringir.) í þessum skattahækkunarpakka, af því að þetta leggst á lánin.