138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[16:57]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður talar um að þessum breytingum sé ætlað að ná fram einhvers konar félagslegu réttlæti. En ég vek athygli þingmannsins á því að allir þeir sem hann telur sig vera og er einlæglega, ég geri ekki lítið úr því, að berjast fyrir, aldraðir, öryrkjar, láglaunafólk, hafa verið að gagnrýna aðgerðir ríkisstjórnarinnar mjög harkalega, öll þessi samtök, Öryrkjabandalagið, Alþýðusambandið, það er hægt að telja öll þessi samtök upp. Ég leyfi mér að halda því fram að félagslegt réttlæti náist ekki með akkúrat þessum skattbreytingum vegna þess að þær eru ekki hugsaðar í gegn, þær eru handahófskenndar. Verið er að breyta einum hlut sem hefur áhrif á eitthvað annað án þess að þetta annað sé kortlagt. Ég gagnrýni þetta og ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af þessum vinnubrögðum, (Forseti hringir.) að verið sé að gera svona drastískar breytingar á ofboðslega stuttum tíma.