138. löggjafarþing — 54. fundur,  19. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Hér er verið að hækka almennt bensíngjald um 2,50 kr. Í gær afgreiddum við lög frá Alþingi þar sem við bættum við umhverfisgjaldi eða kolefnisgjaldi á þennan sama bensínlítra upp á 2,60 kr. Það hét kolefnisgjald, umhverfisgjald, en hitt heitir almennt bensíngjald. Er það ekki líka kolefnisgjald? (Gripið fram í.) Eða jafnvel auðlindagjald? Er þetta ekki auðlindagjald fyrir furstana í Arabíu? Það skyldi nú ekki vera. Það er náttúrlega rangnefni að kalla það sem við vorum að gera í gær auðlindagjald. (Gripið fram í: Já.) Þess vegna vildi ég koma hingað upp. Ég vildi líka benda á að með virðisaukaskatti eru það samtals 6,40 kr. á bensínlítrann sem allir Íslendingar þurfa að borga, líka lágtekjufólkið.