138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[09:49]
Horfa

Frsm. allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri Blöndal fyrir þessa spurningu vegna þess að ég tel að mjög mikilvægt að það komi hér fram, og það hefur m.a. komið fram á fundum sem fulltrúar rannsóknarnefndarinnar hafa átt með fulltrúum í forsætisnefnd þingsins, að það stendur að sjálfsögðu til að birta skýrsluna í heild sinni. Það verður ekkert sem þingið fær að sjá umfram almenning, skýrslan mun birtast öllum á sama tíma, bæði þingmönnum og almenningi, væntanlega bæði á netinu og á prenti þannig að allir hafi sama aðgang að skýrslunni. Það stendur ekki til að skjóta neinu undan.

Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir þessa spurningu vegna þess að mér hefur fundist gæta í almennri umræðu í samfélaginu nokkurs misskilnings um þetta atriði. Menn virðast telja að hér eigi að vera með tvær útgáfur af skýrslunni, útgáfu sem ætluð er almenningi og síðan einhverja aðra útgáfu sem ætluð er einhverjum öðrum aðilum, til að mynda þingmönnum. Það stendur ekki til, skýrslan verður birt öllum á sama tíma.