138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:11]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Síðasta könnun sem ég sá um virðingu Alþingis var að annaðhvort 13% eða 17% landsmanna báru traust til Alþingis. Ég veit ekki hvað menn vilja fara mikið neðar með það áður en þeir einfaldlega labba héðan út og lýsa því yfir að þingið sé óstarfhæft.

Ég var ekki að gera atlögu að trúverðugleika þingsins. Ég hef rökstutt mjög vel á öllum stigum málsins þær breytingartillögur sem við höfum lagt fram og ég hef útskýrt mjög ítarlega hvers vegna við teljum þær nauðsynlegar. Það eru ekki breytingartillögurnar sem gera þetta frumvarp ótrúverðugt, það er frumvarpið sjálft sem er að mínu mati ótrúverðugt frá upphafi. Ef það hryggir hv. formann allsherjarnefndar eitthvað sérstaklega að ég skuli vera ósammála um það verður einfaldlega að hafa það. Ég tel að þetta mál sé það mikilvægt að það hefði þurft að gera það betur, það er einfaldlega þannig. Ég tel að enn sé tími til að leysa það betur og ég vona að Alþingi geri það.