138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:26]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þm. Þór Saari sagði áðan, sem reyndar kom fram hjá framsögumanni líka, að við ræðum hérna óskaplega mikilvægt atriði. Við erum að ræða það hvernig við ætlum að takast á við skýrslu sem væntanlega verður upp á einar þúsund síður frá rannsóknarnefnd valinkunnra manna, valinkunnra Íslendinga, sem kosin var fyrir u.þ.b. ári. Þessi nefnd átti að skila í október, hún fékk frest fram til loka janúar til að skila, og það skiptir gífurlegu máli, ekki bara fyrir alþingismenn heldur fyrir þjóðina alla að vel verði unnið úr þessari skýrslu.

Ég segi það að mér finnst hryggilegt að fólk sem stærir sig af því að hafa komið hér nýtt inn á þing og lætur eins og það sé af einhverju öðru holdi og blóði en við hin sem komum ný inn á þing skuli leggja svo mikið upp úr því sem raun ber vitni að gera þingið tortryggilegt í því hvernig það ætlar að vinna úr þessari skýrslu. Það er alveg ljóst að þingið eitt getur ákveðið hvort það á að stefna alþingismönnum fyrir dóm, um það sem mun snerta alþingismenn, fjölskyldur þeirra eða vini. Það getur enginn annar gert það, það stendur í stjórnarskránni og við verðum að fara eftir henni. Þegar mikið liggur við er betra að notast við það sem maður hefur en að búa til nýtt vegna þess að það er alltaf hætta á því að ef farið er að búa til nýtt kerfi í sérstökum aðstæðum fari menn að sérsníða það að hugmyndum sínum þann dag.

Vissulega má fallast á að það hefði verið betra að eftirlitshlutverk þingsins væri þróaðra. Vissulega væri það betra en það er bara ekki svoleiðis og við verðum þess vegna að gera það besta úr því sem við höfum. Það er lagt til. Hér hefur fólk hugsað, setið og rætt um það: Hvernig gerum við það best?

Niðurstaðan er sú að leggja til að kosin verði níu manna nefnd, tveir frá hverjum flokkanna og einn frá hópnum. Það þýðir ef við leggjum saman að stjórnarandstaðan er með meiri hluta í nefndinni. Er það ekki rétt hjá mér, frú forseti? Ég held að það sé rétt. Þetta er ekki hefðbundin þingmannanefnd eins og hv. þm. Þór Saari leggur svo mikla áherslu á. Og það er einfaldlega ekki rétt að hér standi til að sópa einhverju undir teppi.

Hv. þm. Þór Saari var sjálfur á fundi í gær þar sem einmitt var rætt allítarlega í allsherjarnefnd hvernig koma mætti í veg fyrir það að einhverjar sakir fyrndust. En við verðum líka að gæta okkar á því að við megum heldur ekki fara í nornaveiðar. Það skiptir líka máli. Ég lýsi stuðningi mínum við þetta frumvarp eins og það liggur fyrir. Ég er ánægð með þá breytingu sem gerð var í gær.

Hv. þm. Þór Saari varpar rýrð á það að tveir skili með fyrirvara. Ég þarf ekki að segja honum af hverju það var með fyrirvara. Að minnsta kosti annar þingmaðurinn sagði mjög skýrt að það væri vegna þess að menn væru ekki alveg vissir um að þetta héldi fyrir dómi ef þannig vildi til að menn efuðust um að þetta stytti fyrningarfrestinn. Það var sannarlega ekki fyrirvari til að reyna að grugga vatnið.

Mér finnst bara ekki leyfilegt að koma dag eftir dag í ræðustól á þingi og segja að við séum öll pakk og hyski. Ég mótmæli því.