138. löggjafarþing — 64. fundur,  29. des. 2009.

rannsókn á aðdraganda og orsökum falls íslensku bankanna 2008.

286. mál
[10:38]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil hér í upphafi segja að ég er algjörlega sannfærð um það í þessu máli að allir flokkar eru að vanda sig og þingmenn eru að reyna að gera rétta hluti. Þeir hafa legið yfir þessu máli, það er ekki verið að kasta til höndunum á nokkurn hátt hér. Það hefur enginn efni á því í þeirri stöðu sem við erum í, ekki heldur þeir flokkar sem voru hér fyrir hrun, alls ekki þeir. Hér þurfa allir að vanda sig og gera þetta mál trúverðugt og gott. Það verður að byggja upp traust í þessu samfélagi og það vitum við öll, allir flokkar vita það, ekki bara Hreyfingin. Það er algjörlega með ólíkindum að heyra þann málflutning sem Hreyfingin hefur haft í frammi, þau staglast á þessu: Við vorum ekki hér fyrir hrun, það voruð þið, vonda fólkið hérna inni, liggur við að sagt sé. Þannig á það að skiljast.

Ég neita að láta þetta mál fara fram hjá nema fara svolítið yfir tillögur Hreyfingarinnar. Ég er alveg viss um að Hreyfingin hefur reynt að setja sig inn í þetta og gert þetta vel en samt stendur ekki steinn yfir steini þegar maður fer yfir greinarnar.

Hreyfingin leggur fram breytingartillögur í þremur liðum: Í fyrsta liðnum á Alþingi að kjósa þingmannanefnd, sem er nú stóra hneykslið, ekki satt? Samt vill Hreyfingin að Alþingi kjósi sex þingmenn í nefnd sem á að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta er algjörlega eins og þingið sjálft leggur til, það eru reyndar níu í þeirri nefnd, aðeins fleiri. Ég held að það sé bara betra að það séu fleiri en færri í þessari nefnd.

Hvað á þessi sex manna þingnefnd sem Hreyfingin leggur til að verði sett á fót, að gera? Hún á að:

„a. Móta viðbrögð Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóm eigi að draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum.“

Þetta er nákvæmlega það sama og níu manna þingmannanefndin á að gera, algjörlega það sama, bara „copy, paste“, eins og maður segir á góðri íslensku.

Liður b. Þessi sex manna nefnd á að „kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna“ o.s.frv.

Er þetta eitthvað nýtt? Nei. Þetta er líka það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að vinna í alveg heillengi. Það geta menn séð í lögum um rannsóknarnefndina.

Nefndin á að leita sannleikans um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna o.s.frv. og hún á líka að kanna hverjir kunna að bera ábyrgð á því. Algjörlega það sama, það er ekkert nýtt í þessu.

c. Sex manna þingmannanefnd Hreyfingarinnar á að „móta tillögur og leggja til breytingar á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi, sem urðu hérlendis haustið 2008, endurtaki sig“.

Hvað er nú þetta? Þetta er nákvæmlega það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að vinna heillengi. Þetta er það sem níu manna þingmannanefndin, sem allir flokkar nema Hreyfingin hafa ákveðið að rétt sé að setja á stofn hér, á að gera. Það er ekkert nýtt í þessu.

Svo er bent á að nefndin geti látið rannsaka einstaka þætti málsins betur sem og atriði sem rannsóknarnefndin hefur ekki fjallað sérstaklega um. Er eitthvað nýtt í þessu? Nei, það er ekkert nýtt í þessu. Þetta á líka níu manna þingmannanefndin að gera. Þetta er allt nákvæmlega eins nema hér stendur að þingmannanefndin sem Hreyfingin vill setja upp eigi að ljúka störfum fyrir 1. maí 2010.

Um níu manna þingmannanefndina sem hinir flokkarnir vilja setja upp er engin sérstök tímasetning að þessu leyti. Talað er um að hún eigi að starfa á yfirstandandi þingi en að störf hennar geti dregist fram í september, við vitum það ekki. En er allur munur á þessu? Nei, virðulegi forseti, alls ekki.

Síðan er hin breytingartillagan, hvað ætli sé merkilegt og nýtt í henni? Þar stendur að Alþingi eigi að kjósa nefnd fimm valinkunnra manna utan þings sem njóta óumdeilanlegs trausts þorra almennings. Fimm manns úti í bæ, eins og við höfum kosið að orða það hér. Hvað á þessi nefnd að gera?

„a. Koma með tillögur að viðbrögðum Alþingis við niðurstöðum skýrslunnar, þar á meðal hvaða lærdóma megi draga af þeim atburðum sem urðu haustið 2008, aðdraganda þeirra og afleiðingum.“

Er þetta eitthvað nýtt? Nei, þetta er ekkert nýtt, það er nákvæmlega það sem rannsóknarnefndin er að gera í dag, nefndin úti í bæ. Þetta starf er löngu hafið. Það er algjör óþarfi að setja á fót nýja nefnd fimm valinkunnra manna úti í bæ, setja á fót nýja nefnd með nýjum lögum til að fara í verkefni sem við erum að vinna í dag. Rannsóknarnefndin er að vinna þetta.

b. Þessi fimm manna nefnd úti í bæ á að „kanna grundvöll ábyrgðar á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna, kerfishruns og djúpstæðrar kreppu í fjármálalífi þjóðarinnar sem og algers samfélagslegs siðrofs“.

Er eitthvað nýtt í þessu? Nei, þetta er það sem rannsóknarnefndin er að gera. Ég hvet þingmenn til þess að lesa lögin um rannsóknarnefndina ef þeir vita það ekki, þetta stendur þar. Þetta er nákvæmlega það sem hún er að gera, eins og ég las upp áðan, hún er að kanna hverjir bera ábyrgð á þeim atburðum sem leiddu til falls bankanna.

Síðan kemur c-liður. Þessi fimm manna nefnd úti í bæ á að „móta tillögur að breytingum á lögum og reglum í því skyni að koma í veg fyrir að atburðir af því tagi sem urðu hér á landi haustið 2008, endurtaki sig“.

Hafa menn heyrt þetta áður? Já. Þetta er einmitt það sem rannsóknarnefndin er að gera og hefur verið að gera um langt skeið, það er ekkert nýtt í þessu.

Svo kemur hér: Þessi nefnd sem Hreyfingin vill setja upp, fimm manna nefnd úti í bæ, „setur sér eigin verklagsreglur og skilar tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar sem kveðið er á um í 15. gr. og kynnir þær opinberlega. Nefndin skal ljúka störfum fyrir 15. mars 2010“.

Þessi fimm manna nefnd valinkunnra manna úti í bæ sem Hreyfingin vill setja upp á að skila tillögum og skýrslum til þingmannanefndarinnar fyrir 15. mars 2010. Þetta er ekki hægt að skilja með nokkrum öðrum hætti en þeim að þetta er tafarferli af því að rannsóknarnefndin sinnir nú því sama og sú fimm manna nefnd úti í bæ, sem Hreyfingin kallar eftir. Hún þarf að skila miklu fyrr, hún hefði reyndar átt að vera búin að því en það voru allir sammála um að hún fengi meiri frest af því að þetta er svo umfangsmikið verkefni. Rannsóknarnefndin mun skila í lok janúar eða í byrjun febrúar, löngu fyrir 15. mars 2010, sem er dagsetningin sem Hreyfingin vill miða við.

Það stendur því ekki steinn yfir steini í tillögum Hreyfingarinnar. Þar er verið að leggja til að gera hlutina á lengri tíma en miðað er við í dag, ef eitthvað er, t.d. varðandi fyrsta hlutann, þ.e. rannsóknarnefndina sjálfa. Hún á að skila fyrr í tillögum hinna flokkanna. Það má hins vegar deila um hvort þingmannanefndin skili fyrr eða ekki. Hreyfingin vill að hún geri það 10. maí en hinir flokkarnir segja „á yfirstandandi þingi“. Hugsanlega verður það í lok september, virðulegur forseti.

Þetta eru nú tillögur Hreyfingarinnar. Áðan var sagt og klifað á því hvað traustið á Alþingi væri lítið og það er áhyggjuefni. Ég skýt því að að það er gleðilegt hvað traustið á lögreglunni er mikið í því erfiða ástandi sem við erum í og lögreglan hefur þurft að taka á mjög mörgum erfiðum málum. Hún nýtur mjög mikils trausts og ég er ánægð með það. En traustið á Alþingi er ekki mikið m.a. vegna þess hvernig talað er hér inni.

Hv. þm. Þór Saari sagði að hér færi fram málefnaleg umræða með rökum og að menn skiptust á skoðunum, það væri oft tekist á um trúverðugleika mála og það er alveg rétt. En þegar hv. þm. Hreyfingarinnar, Þór Saari, kemur hér upp ítrekað og viðhefur málflutning eins og þann að þingheimur allur, að Hreyfingunni undanskilinni, ætli að sópa skýrslu rannsóknarnefndarinnar undir teppið og að þingið ætli að skila einhverri froðu um verslunarmannahelgina, að málið sé einhvers konar samtryggingarkerfi þingmanna um að gera ekki neitt, þá segi ég bara nei. Ég neita að sitja undir svona málflutningi sem þingmaður. Ég hef ávallt reynt í störfum mínum að vera heiðarleg og hafa hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi og vera réttlát og sanngjörn. Fyrir það stend ég og fyrir það ætla ég að standa. Þess vegna ætla ég ekki að sitja undir því þegar hér koma þingmenn upp og saka mann um eitthvað annað, að ætla að sópa einhverju undir teppið. Ég held að það sé ekki hægt. Þó að allir mundu vilja það — sem menn vilja ekki — væri það ekki hægt. Það eru þannig aðstæður í samfélaginu í dag, fólk er mjög reitt yfir því sem gerðist. Við erum með rannsóknarnefnd til að rannsaka það. Við sameinuðumst um að gera það þannig og vorum öll sammála um það þegar rannsóknarnefndin var sett upp, hver einasti þingmaður, hver einasti flokkur, og þetta var vel gert.

Í gær fóru þingmenn að vísu svolítið fram úr sér. Hér voru menn með miklar sakbendingar á milli flokka og milli einstaklinga, sem er algjörlega ótímabært. Við eigum að bíða eftir niðurstöðu rannsóknarnefndarinnar, þá eigum við að taka á málinu. Við settum þá nefnd á fót til þess að leita sannleikans eins vel og hægt er að gera það og á meðan staðan er eins og hún er núna er það bara gífurlegt ábyrgðarleysi þegar flokkar reyna að klifra upp bakið á hver öðrum í þessari stöðu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég vil segja að Hreyfingin geri það. Hreyfingin klifrar upp bakið á öðrum flokkum í þessu máli, reynir að skapa ótrúverðugleika í kringum rannsóknarnefndina og í kringum þingmannanefndina sem á að taka við þessu.

Hreyfingin mun eiga fulltrúa og fær fulla aðkomu að þeirri nefnd níu manna þingmannanefnd sem ég á von á að við greiðum atkvæði um á morgun. Ég vil, virðulegur forseti, beina því til þingmanna Hreyfingarinnar að íhuga hvort það sé ekki betra að reyna að skapa eitthvert traust og aðstoða aðra flokka og þá þingmenn hér inni sem vilja skapa trúverðugleika, við að byggja upp traust um þetta starf. Starfið sem mun fara fram í þessari níu manna þingmannanefnd verður gríðarlega erfitt og ég öfunda ekki þá þingmenn sem fara í þá nefnd. Það má að mínu mati ekki grafa undan nefndinni á sama tíma. Hún þarf fullt „back up“. Hún þarf að taka erfiðar ákvarðanir. Þær liggja hugsanlega ekki í augum uppi. Þetta verður erfitt starf. Hreyfingin þarf að sitja þar inni eins og aðrir flokkar og taka þessar erfiðu ákvarðanir.

Það verður að ríkja algjört traust um þessa nefnd. Ég kalla því til þingmanna hv. Hreyfingarinnar og bið þau að standa nú með okkur í þessu máli og skapa traust um þessa þingmannanefnd. (Gripið fram í.)