138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[10:47]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir ágæta framsögu. Ég hef áhuga á auknu lýðræði, þar með talið þjóðaratkvæðagreiðslum. Ég verð þó að viðurkenna að mér finnast menn flýta sér um of þegar lagt er fram einnotafrumvarp sem á að keyra í gegnum þingið á einum degi.

Ég hef áhyggjur af nokkrum atriðum varðandi fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu en það sem ég hef kannski mestar áhyggjur af er skortur á hlutlausri fræðslu og upplýsingagjöf til almennings. Ef við skoðum tvö stærstu dagblöðin síðustu tvo daga má sjá að þau hafa strax skipað sér í fylkingar í komandi áróðursstríði um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Um fá mál eru til fleiri heimildir og sumar þeirra hafa ekki verið gerðar opinberar. Ég óttast að erfitt verði fyrir almenning að komast að rökréttri, yfirvegaðri niðurstöðu við þessar aðstæður. Telur hæstv. dómsmálaráðherra ekki þörf á að tryggja að almenningur fái hlutlausar upplýsingar í þessu máli, t.d. með því að fela óháðri stofnun að taka saman og miðla upplýsingum til almennings?