138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[11:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er að renna upp fyrir mér að líklega var það ofmat hjá bæði stjórnarandstöðunni og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur að bjóða upp á samstarf við ríkisstjórnina til að reyna að fá betri samning. Miðað við það hvernig því hefur verið tekið er alveg ljóst að það var líka ofmat.

Hæstv. forsætisráðherra er að núa okkur því um nasir að hafa skipt um skoðun. Hvaða endemis vitleysa er þetta, virðulegur forseti? Þeir sem tala svona vilja enga sátt og ég held að við ættum því að hætta að tala þetta, snúa okkur að hörkubaráttu um þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og reyna að koma því þannig fyrir að fólkið segi nei í þessari atkvæðagreiðslu til að efla samningsstöðu Íslands, bæta samningsstöðu Íslands. Eva Joly segir á bls. 2 í Morgunblaðinu í morgun: Þetta er þjófnaður á almannafé. Það er ekkert annað. Eiríkur Tómasson segir að ef þetta verði samþykkt sé búið að útiloka að við getum tekið samninginn upp seinna. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra út í það. (Forseti hringir.) Deilir hæstv. forsætisráðherra þeirri skoðun Eiríks Tómassonar lögfræðings og margra annarra (Forseti hringir.) að ef þjóðin segi já við Icesave-samningunum verði mjög erfitt að taka þá upp síðar?