138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hélt mig bara við það að lýsa staðreyndum um hvað fram hefur komið í þessu efni og ég trúi því ekki að hv. þingmaður neiti því að það ástand sem við erum í hafi skapað mikla óvissu. Það hefur komið fram að ef hægir svona á framkvæmdum, stóriðjuframkvæmdum eins og ég nefndi hér, gæti það dregið úr hagvexti um 1,5% og atvinnuleysi gæti aukist um nær 0,5%. Og 1,5% af landsframleiðslu í hagvexti eru um 20 milljarðar kr., þannig að þetta hlýtur að hafa áhrif. Mér finnst hv. þingmaður taka því af vissri léttúð hvaða áhrif þetta getur haft og vísar alltaf í hræðsluáróður þó að fyrir liggi staðreyndir í málinu. Ég vísa í það sem fram hefur komið í fjölmiðlum og hvað hagfræðingur ASÍ segir um málið. Hann segir: „Í þeirri óvissu sem nú er komin upp er ómögulegt fyrir orkufyrirtækin að fjármagna sig. Þá er ljóst að ákvörðun forsetans um Icesave hefur einnig neikvæð áhrif á bæði vaxtastigið og gjaldeyrishöftin. Ef krónan væri ekki bundin gjaldeyrishöftum væri hún líklega í frjálsu falli núna.“ Það þýðir ekkert að berja hausnum við steininn (Forseti hringir.) og halda því fram að þetta hafi engin áhrif á efnahagsþróun okkar.