138. löggjafarþing — 67. fundur,  8. jan. 2010.

þjóðaratkvæðagreiðsla um gildi laga nr. 1/2010.

352. mál
[12:33]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þm. Atli Gíslason sá samt í hillingum útrétta sáttarhönd forsætisráðherra og þá stekkur hv. þm. Guðbjartur Hannesson á þessa sáttarhönd til þess að reyna að tryggja að hún verði örugglega ekki útrétt lengur og er með alls kona furðulegar fullyrðingar. Meðal annars mun ég hafa fengið einhvern titil sem ég vissi ekki einu sinni að mér hefði hlotnast. En það væri gaman að heyra nánar af því á eftir hvar mér hlotnaðist þessi heiður og hvort því fylgi einhver verðlaun af einhverju tagi. (Gripið fram í: BJJ: Rauði þráðurinn. ) Já, eflaust Rauði þráðurinn, spunaþráður Samfylkingarinnar.

Hv. þm. Guðbjartur Hannesson fullyrti að Framsóknarflokkurinn hefði aldrei viljað sættir í þessu máli. Hann veit betur vegna þess að Framsóknarflokkurinn var þátttakandi í þeirri fyrirvaravinnu sem ótrúlega mikil vinna var lögð í hér síðasta sumar. Hann gerði athugasemdir við það, taldi niðurstöðuna ekki raunhæfa af ástæðum sem síðan kom í ljós að voru því miður réttar, réttar (Forseti hringir.) eins og hinn svokallaði hræðsluáróður minn, sem ólíkt hræðsluáróðri Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) á rétt á sér. Það kemur á daginn aftur og aftur að viðvaranirnar, ekki hræðsluáróðurinn (Forseti hringir.) heldur viðvaranirnar, reyndust réttar.