138. löggjafarþing — 74. fundur,  4. feb. 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[13:54]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég verð að játa að ég hef alltaf verið skotinn í þeirri hugmynd að einstaklingarnir sjálfir fái aflaheimildirnar til ráðstöfunar og við settum þessa hugmynd fram þegar ég ritstýrði Stefnuskrá ungra jafnaðarmanna einhvern tíma á síðustu öld. Það vekur athygli mína að þær hugmyndir sem hv. þingmaður reifar um afskriftirnar eru býsna nærri því sem ríkisstjórnin hefur kynnt í stefnuyfirlýsingu sinni. Við höfum kynnt u.þ.b. 5% afskriftir á ári, þ.e. að kvótinn væri afskrifaður á 20 árum. Hv. þingmaður talar um 4% sem umræðugrundvöll. Ég held að það sé kannski bitamunur en ekki fjár, því það er rétt hjá hv. þingmanni að einn áratugur er ekki langur tími í lífi þjóðar. Þannig að ég fæ ekki betur séð en að mat um það hvað sé raunsætt í þessu sé nokkuð samhljóða hjá stjórnarliðinu og hv. þingmanni, sem þekkir vel til viðskipta- og efnahagsreikninga fyrirtækja.

Ég verð þó að vera algerlega ósammála hv. þingmanni um að tíminn til að gera breytingar sé ekki núna. Auðvitað er tíminn til að gera breytingar einmitt núna í kjölfar hrunsins þegar menn eru að skipuleggja atvinnuvegina áratugi fram í tímann. Það væri mikið óráð að skipuleggja atvinnuvegina áratugi fram í tímann og ætla svo að koma eftir þrjú ár eða fimm ár og rífa allt skipulagið upp. Við eigum einmitt að endurskipuleggja það núna. Sá leiðangur ríkisstjórnarinnar hefur sannarlega ekki orðið til þess að draga úr atvinnusköpun í sjávarútvegi, því á að þeim tíma sem hefur liðið frá því að stefnuyfirlýsingin kom fram hefur störfum í íslenskri fiskvinnslu fjölgað um mörg, mörg, mörg hundruð. Sem betur fer, því í þeim erfiðleikum sem við er að glíma, hefur það verið mikilvæg viðbót og gott að þannig sé búið að sjávarútveginum.