138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:22]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt um þennan karfa, það eru ansi mörg flækjustig í því máli. Það er rétt að nefndin skoðaði margar útfærslur á því hvernig hægt væri að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem þar eru uppi til að geta skipt þessum karfaúthlutunum í djúpkarfa og gullkarfa. Það sem hér er reynt að gera er að fækka þeim álitamálum sem gætu komið upp. Það er út af fyrir sig alveg rétt að það hefur sennilega verið gert að mjög umtalsverðu leyti með þeirri lagasetningu sem boðuð er í breytingartillögunum.

Alveg eins og hv. þm. Ásbjörn Óttarsson vakti athygli á kunna hins vegar að standa út af einhver tilvik sem þarf að bregðast við. Ég ætlaði í rauninni fyrst og fremst að árétta spurninguna um þetta reglugerðarákvæði sem verið er að veita heimild til í þessari lagasetningu þar sem ráðherra er gefin heimild til að setja reglugerð um nánari útfærslu á reiknigrunni, hvort hér sé fyrst og fremst verið að setja reglugerð um framkvæmd þessa ákvæðis í frumvarpinu eða hvort verið sé að opna möguleika á því að bregðast við sérstökum aðstæðum líkum þeim sem hér hefur verið rætt um.

Í annan stað langar mig líka að spyrja út í frístundafiskiskipin. Þar er gert ráð fyrir að þau fái að leigja sér aflaheimildir úr sérstökum afmörkuðum potti. Þar er hins vegar gert ráð fyrir því að verð aflaheimildanna sé ekki hið sama og t.d. er varðandi skötuselinn, heldur á þar að miðast við markaðsverðið. Aflaverðmætið á þessum bátum er allt annað, þarna eru menn að koma með smáfisk og kóð sem stendur ekki undir mjög háu leiguverði og þess vegna spyr ég hv. þingmann hvort ekki hefði komið til greina að hafa aðra viðmiðun við verðlagningu á þessum leiguheimildum, hafa þetta t.d. sem hlutfall af markaðsverði í stað þess að gera ráð fyrir því að nota það markaðsverð sem er á hverjum degi. Við vitum að það eru mikil þrengsli (Forseti hringir.) á leigumarkaðnum, verðið er afbrigðilega hátt og ótti manna stendur til þess að þetta form ráði einfaldlega ekki við það að leigja til sín aflaheimildir við gefnar forsendur.