138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[17:30]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannesson stendur að ásamt mér. Gríðarlegur ágreiningur er um það frumvarp sem hér er fjallað um. Nær einsdæmi má telja að nánast allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi hafi krafist þess að frumvarpið verði ekki afgreitt, eða a.m.k. að umdeildasta þætti þess verði hafnað. Illu heilli hefur ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis skellt skollaeyrum við öllum slíkum málaleitunum.

Á sama tíma og ríkisstjórnarmeirihlutinn viðhefur þessi vinnubrögð situr að störfum nefnd sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipaði til að endurskoða fiskveiðilöggjöfina og skapa um hana meiri sátt. Ráðherra sjálfur lagði á það áherslu að starfshópurinn fengi frið til verka sinna. Engu að síður er ljóst að með verkum sínum, ekki síst þessu frumvarpi, hefur ráðherrann og stjórnarmeirihlutinn stórspillt fyrir nefndarstarfinu. Það verður nefnilega ekki stuðlað að sáttum um fiskveiðistjórnarkerfið með því að efna til ófriðar við sjávarútveginn.

Virðulegi forseti. Mig langar til að rifja upp þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mætti á tvo aðalfundi sem voru haldnir í fyrrahaust. Annar var hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og þá sagði ráðherra að hann vildi ekki ræða efnislegar breytingar á sjávarútvegsmálunum vegna þess að hann vildi gefa starfshópnum sínum — sem hann skipaði sjálfur — frið til þess að vinna. Mér fannst þetta mjög skynsamlegt af hæstv. ráðherra en það stóð ekki lengi. Hann gat ekki setið á sér að fara fram með það frumvarp sem hér er, eða hluta af því. Þó að þetta frumvarp sé yfirleitt kallað skötuselsfrumvarpið er sá þáttur reyndar bara einn af mörgum þáttum sem er verið að breyta. Hins vegar fer ekki á milli mála að það er umdeildasta ákvæðið í frumvarpinu. Þess vegna finnst mér nær óskiljanlegt, virðulegi forseti, að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem skipar starfshópinn til að fara yfir endurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu, sem er mjög gott og þarft verk, skuli sjálfur leggja fram það frumvarp sem setur starf nefndarinnar í loft upp. Það er mjög sérkennilegt.

Nú er ég ekkert að mæla því bót að sumir innan greinarinnar segi: Bíddu við, þetta gengur það langt að við viljum ekki taka þátt í starfinu, og hóta að hætta. Allt í lagi, ég er ekki að segja að það sé sanngjarnt en það er mjög sérkennilegt að sjálfur ráðherrann, sem skipar starfshópinn til að fara yfir málið, skuli svo stuðla að því að eyðileggja það. Það eru sérkennileg vinnubrögð svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Það er nefnilega svolítið sérkennilegt líka við þetta mál, sérstaklega þetta skötuselsákvæði, að nánast allir aðilar í sjávarútvegi eru á móti því. Það er aðeins einn af öllum aðilunum með því, alveg sama hvort þeir eru sjómenn, útvegsmenn eða smábátasjómenn, það eru allir á móti þessu ákvæði. Samt heldur ráðherrann áfram með málið — og hver er niðurstaðan? Hann eyðileggur vinnu síns eigin starfshóps sem átti að skapa frið og sátt um fiskveiðistjórnarkerfið. Þetta eru sérkennileg vinnubrögð, virðulegi forseti.

Svo langar mig líka að rifja upp þegar hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór á aðalfund hjá Landssambandi smábátaeigenda. Þar mætti hann eins og malandi köttur sem vildi láta strjúka sér og klappa, setti þar fram mál eins og t.d. að hækka línuívilnun og svoleiðis. Þannig upplifði ég þetta í fyrrahaust, nákvæmlega svona. Í staðinn fyrir að hæstv. ráðherra hefði bara talað um 16% línuívilnunina sem er gert ráð fyrir núna að hækki upp í 20% hefði hæstv. ráðherra líka getað tekið þann pól í hæðina að verja t.d. slægingarstuðulinn sem er klárlega vitlaus gagnvart línuveiðum.

Það er líka mjög mikilvægt að við áttum okkur á öllum staðreyndum mála. Við erum með innbyggða skekkju í slægingarstuðli á slægðum línufiski einhvers staðar á bilinu 6–8% þannig að í raun og veru er línuívilnunin í dag óbreytt einhvers staðar í kringum 22–23%. Nú förum við með þessa ívilnun upp í 27–28% og menn verða að staldra við og spyrja sig hinnar gagnrýnu spurningar: Er þetta réttlætanlegt?

Ég vil líka rifja það upp núna, virðulegi forseti, að þeir sem eru með úthlutun í þorski eru skertir. Það liggur fyrir að ef strandveiðarnar hefðu verið teknar inn í núna, þessi 6.000 tonn, hefðu þeir aðilar verið skertir um 8,3% bara út af sértækum aðgerðum, línuívilnun, rækjubátum, skelbátum, byggðakvótum, strandveiðum og þar fram eftir götunum.

Við verðum að horfa á málið í heild sinni. Þess vegna fannst mér ótrúlegt að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gæti ekki einu sinni farið á einn aðalfund öðruvísi en að mæta þar sem malandi köttur. Þannig upplifði ég það. Það er klárlega viðurkenning á því og hugsunin á bak við línuívilnunina var að verja störfin í landi. Að mínu mati dekkuðu þau 16% það nægjanlega því að það er ekki hægt að horfa á þetta þannig að menn geti endalaust verið að færa til.

Ég ætla að rifja upp, þegar við erum að tala um færslur innan kerfisins, hvernig þetta hefur gerst í gegnum tíðina. Tökum útgerð í Vestmannaeyjum sem fékk úthlutað 483 tonnum af þorski við kvótasetninguna 1984, þá hefði hann verið skertur um 40% til þess að fá þessa úthlutun. Og ef við tökum þessa úthlutun hjá þessari einstöku útgerð og förum með hana alveg til dagsins í dag, þá miðað við að hún hefði hvorki keypt né selt neinar aflaheimildir, er niðurstaðan sú að af þessum 483 tonnum standa eftir 34 tonn, svokallaður gjafakvóti sem menn hafa talað svo um.

Ég er búinn að spyrja marga hv. þingmenn spurningarinnar: Hvað teljið þið að hafi staðið eftir af þessum aflaheimildum hjá viðkomandi útgerð? Enginn hefur enn þá giskað undir u.þ.b. 150 tonnum. Margir hafa talað um 300–350 tonn. Þannig er oft og tíðum þessi umræða um sjávarútvegsmálin hjá okkur. (Gripið fram í: Á hvaða tíma?) Á hvaða tíma? Hún er nákvæmlega svona, þetta er bara frá upphafi úthlutunar til dagsins í dag. Eftir standa 34 tonn. Þessi útgerð er fjölskylduútgerð sem hefur eingöngu keypt sér aflaheimildir til að búa til atvinnurétt. Svo er þetta fólk sem starfar í þessari grein kallað — eins og ég er reyndar ekki enn þá búinn að ná mér eftir, eins og hæstv. félagsmálaráðherra sagði og lét hafa eftir sér í blöðum — apakettir og spilafíklar. Hann gerir engan greinarmun þar á. Það er alveg hreint með ólíkindum að bjóða okkur upp á að hlusta á svona rugl.

Síðan vil ég líka benda á að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á að halda áfram opinni sáttaleið, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans, þar sem menn reyndu að ná einhverri sátt í þessum málum. Margir hv. stjórnarþingmenn hafa lagt mikið á sig til þess. Ég minni bara á það á þessum tímamótum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra reyni að halda sáttaleiðinni opinni sem hann hefur aldrei viljað opna dyragáttina á, það er eins og að láta mink passa hænsnabú. Það er nákvæmlega þannig, því miður.

Virðulegi forseti. Minni hlutinn hefur freistað þess að skapa skilyrði til sátta í þessu máli og flutt breytingartillögu í þá veru. Á það hefur ekki verið hlustað. Fram hefur komið að svokallað skötuselsákvæði mætir mikilli mótspyrnu í sjávarútveginum. Gildir það jafnt um samtök sjómanna, fulltrúa Landssambands smábátaeigenda, Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka fiskvinnslustöðvanna. Landssamband smábátaeigenda lagði til að þessu ákvæði yrði hafnað en tekið á vandanum við skötuselsveiðarnar, vegna breyttrar útbreiðslu stofnsins, með því að setja inn sérstakt meðaflaákvæði í lögin. Nákvæmlega þetta lagði minni hlutinn til við 2. umr. málsins. Ljóst er að slíkt fyrirkomulag mundi skapa sátt um þessi mál og leysa þann vanda sem breytt útbreiðsla stofnsins hefur skapað. Enn hefur meiri hlutinn tækifæri til að standa að slíkum breytingum og skapa sátt um deiluefnið.

Þetta er nákvæmlega eins og ég sagði áðan, það eru til leiðir til að mæta þessari útbreiðslu, breytingu á stofninum vegna hækkunar hitastigs sjávar, en því miður er verið að fara mjög vitlausa leið í því. Eins og kemur fram í þessu nefndaráliti hefði verið hægt að virkja svokallaða meðaflareglu gagnvart grásleppubátunum eða þeim sem stunda ekki beint þessar veiðar. Það er hægt að leysa þessi vandamál en því miður velja þeir sem stýra þjóðarskútunni oft og tíðum vitlausustu leiðirnar.

Mikilvægasta breytingartillagan sem liggur fyrir nú við 3. umr. málsins af hálfu meiri hluta sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar lýtur að úthlutun aflaheimilda í karfa. Betra er að úthluta þar aðgreindum aflaheimildum í úthafskarfa og gullkarfa. Hitt er einnig mikilvægt að það sé gert með sanngjörnum og framkvæmanlegum hætti. Á hvort tveggja skortir í þeirri útfærslu sem lögð er til í frumvarpinu. Minni hlutinn varaði við þessari framkvæmd og hvatti til þess fyrir 2. umr. að á því máli yrði tekið. Á það var ekki hlustað og málið tekið út úr nefnd óunnið og í algjöru tilgangsleysi.

Í áliti minni hlutans við 2. umr. málsins segir, með leyfi forseta:

„Þá eru bráðabirgðaákvæði í frumvarpinu sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa. Þetta er sjálfsagt mál og er niðurstaða nefndar sem vann að þessum málum. Þó er ljóst að sú aðferð sem lögð er til í frumvarpinu mun hafa margs konar óhagræði í för með sér. Ekki er reynt að átta sig á hver sé raunveruleg veiðireynsla einstakra skipa í hvorri tegund fyrir sig. Vitað er að einkanlega minni togskipin hafa ekki neina raunverulega veiðireynslu í djúpkarfa, einfaldlega vegna þess að toggeta þeirra hefur ekki gert þeim kleift að veiða þá tegund. Verði þetta ákvæði frumvarpsins að lögum munu þessi skip hins vegar fá úthlutun í djúpkarfa án þess að geta nýtt sér hana.

Eðlilegt hefði því verið að freista þess að kalla fram upplýsingar um veiðireynslu skipanna í hvorri tegundinni fyrir sig og úthluta veiðiréttinum á grundvelli þessara upplýsinga. Til þess að svo megi verða þarf að vinna þetta mál betur og ítarlegar. Eðlilegt er því að fresta afgreiðslu þessa tiltekna ákvæðis og leggja í nauðsynlega vinnu til þess að varpa betra ljósi á málið.“

Meiri hlutinn hefur í rauninni tekið undir þessa gagnrýni með því að freista þess að bæta úr með allítarlegri breytingartillögu. Þar er að sönnu komið til móts við ofangreind sjónarmið en gallinn er hins vegar sá að útfærslan er enn óljós. Framvinda málsins mun ráðast af reglugerðarheimild sem ráðherra er veitt í breytingartillögum sem fyrir liggja. Ekkert liggur fyrir, m.a. í nefndaráliti meiri hlutans, um hvernig þetta verður framkvæmt eða hvernig það muni virka gagnvart þeim útgerðum sem vandamálið snýr fyrst og fremst að. Augljóslega er ekki hægt að afgreiða málið nema þetta liggi skýrt fyrir.

Virðulegi forseti. Þetta er það sem ég var að kalla eftir í andsvörum við hv. þm. Atla Gíslason, formann sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar, áðan og hann gefur, a.m.k. mér, væntingar um að tekið verði á þessu máli. Þegar hann heitir því liðsinni sem formaður nefndarinnar að sjá til þess að ráðherrann geri þetta þannig að það skapi ekki þessa óvissu hjá útgerðum bind ég miklar vonir við það. Ég segi það alveg hispurslaust vegna þess að það er rosalega óþægilegt að skilja alltaf eftir hvert málið á fætur öðru með fyrirvara um að sett verði reglugerð sem ráðherra breytir svo og lagar til. Það hefði verið æskilegra ef lyktirnar hefðu legið fyrir og menn sæju nákvæmlega hver niðurstaðan er. Ég ítreka að ég tek mikið mark á því sem hv. þm. Atli Gíslason segir þegar hann segist ætla að fylgja því eftir í framhaldinu gagnvart ráðherranum.

Eins og ég sagði áðan hefur hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd komið til móts við þá aðila sem eru með minna en 12,5 tonn í þessum breytingartillögum. Ég fagna því og tel að nefndin hafi staðið sig vel þar þó að ég hefði viljað sjá þetta mál til enda leitt. Því miður er það ekki þannig og ég treysti á að því verði fylgt eftir að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra setji þá reglugerð sem dekkar það í því reiknilíkani sem þar er.

Virðulegi forseti. Ég ætla líka að fara aðeins nánar yfir þetta og ég ítreka að í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd hafði ég margsinnis bent á í umræðum á milli 1. og 2. umr. og 2. og 3. umr. að það væri mjög mikið ósamræmi, og óréttlæti að mínu mati, í þeim tillögum að útiloka þá sem reru frá Hornafirði að Þorlákshöfn, eða nánast að Reykjanesi þar sem Grindavík er, að þeir gætu ekki sótt um í þennan pott — sem ég er reyndar ekki sáttur við — en þeir hefðu þá ekki aðgengi til að sækja um í hann vegna þess að veiðireynslan hefði orðið til á þessu svæði. Mér fannst þetta mjög sérkennilegt og óréttlátt en það hefur hins vegar breyst í meðförum nefndarinnar milli 2. og 3. umr. Ég fagna því sérstaklega að það skuli hafa verið gert.

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan er margt meira í þessu óskrifað blað. Það kemur fram í frumvarpinu að menn eru með heimild í bráðabirgðaákvæði til hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að úthluta allt að 2.000 tonnum af skötusel. Síðan upplifði maður það þannig að menn fóru aðeins á hlaupum frá því og minnkuðu það. Hæstv. ráðherra sagði, ef ég man rétt, 1.500 tonn og svo minnkaði það. Ráðherra sagði og það stendur líka í lögunum að þetta yrði gert í samráði og samvinnu við Hafrannsóknastofnun og það lá alveg fyrir hvert álit Hafrannsóknastofnunar var á þessu máli. Hún var búin að gefa út það sem hún taldi skynsamlegt að nýta og það gat aldrei verið nema á einn veg, að hún mundi hafna svona miklum úthlutunum hjá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Nú kemur fram á heimasíðu ráðuneytisins að hæstv. ráðherra ætli að „taka mið af aflamarksúthlutunum forvera sinna og heildarveiði undanfarinna ára, við ákvörðun á því magni af skötusel sem leyft yrði að veiða samkvæmt ákvæðum frumvarpsins fyrir fiskveiðiárið 2009/10“ sem eru þá u.þ.b. 600 tonn sem hefur verið úthlutað umfram. Það liggur ekki fyrir hvernig það er gert vegna þess að enn er hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í þessum sáttaleiðangri — sem ég hef reyndar ekki mikla trú á en látum hann njóta vafans. Þá er spurningin þessi: Hvernig ætla menn að úthluta þessu? Ég tel alveg einsýnt að miðað við 5 tonna regluna muni mun fleiri bátar sækja um og það getur skakkað að hámarki 5 tonnum hjá hverjum. Það liggur alveg skýrt fyrir í mínum huga að það verður ekki. Þegar menn hafa spurt ráðuneytismenn hvernig þeir hafi hugsað sér að gera þetta, ja, þá er hugsanlega ein leiðin að draga upp úr hatti. Það hefði verið mjög æskilegt ef menn væru bara með það alveg skýrt hvernig þeir ætluðu að vinna svona hluti en það er ekki klárað frekar en margt annað.

Virðulegi forseti. Að lokum vil ég vekja athygli á því sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson vakti máls á áðan þegar hann fór í andsvar við hv. þm. Atla Gíslason. Mér finnst vera dálítið stílbrot í þessu frumvarpi að því leyti til að það er lagt til að í þessari heimild sem hæstv. ráðherra hefur til að úthluta skötuselnum er ákveðið kílóverð sem er 120 kr. Það er langt undir markaðsvirði skötusels í dag. Síðan þegar kemur að því að svokallaðir frístundaveiðibátar þurfa að sækja um í þennan sjóð, þessi 200 tonn sem ráðherra hefur til að úthluta sérstaklega til þeirra aðila, er sagt að það sé meðalverð á þeim aflaheimildum miðað við markaðsverð. Mér finnst það skjóta dálítið skökku við, virðulegi forseti, af hverju er þessum aðila gert að greiða eitthvert viðmiðunarverð miðað við markaðsverð en hinir fá að sleppa við að greiða það? Mér finnst mjög sérkennilegt að í sama frumvarpinu skuli vera hvor sín leiðin.

Ég sat fundinn í hv. sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd, þó að ég eigi ekki sæti í henni, þegar rekstraraðilarnir frá Hvíldarkletti komu. Þeir bentu á að þetta hráefni væri veitt á viðkvæmum tíma og væri mjög lélegt hráefni. Eins og kom líka fram áðan eru þetta eingöngu sportveiðar, menn hirða allan aflann, alveg sama hvort fiskurinn er stór eða lítill, og ganga ekki vel um hann þannig að markaðsvirði hans er mjög lítið. Það er mjög sérkennilegt að í frumvarpinu skuli þetta gert svona vegna þess að þessi 200 tonna pottur sem ráðherrann hefur til að úthluta til frístundaveiða er eingöngu til þess. Og hann er hugsaður til þess að þeir aðilar sem eru í þessum rekstri hafi aðgang að aflaheimildum. Eins og við vitum eru engar aflaheimildir, það er allt að klárast vegna þess að það er svo litlu úthlutað af aflaheimildum.

Ég tel hins vegar jákvætt skref að gera þessum rekstraraðilum kleift að hafa þó borð fyrir báru til að ná í þennan sjóð til að geta tryggt rekstur fyrirtækjanna. Þeir aðilar sem starfa í þessari atvinnugrein þurfa að selja kannski marga mánuði fram í tímann og þá er mjög slæmt eins og í þessu ástandi núna að hafa enga vissu fyrir því að þeir geti þó staðið við það að þeir aðilar sem vildu nýta þjónustu þeirra hefðu ekki aðgang að aflaheimildum.

Eins kom líka fram hjá þeim að það væri skynsamlegra, af því að þessi 200 tonn duga ekki miðað við það sem hefur verið, að láta ráðherrann gefa þeim heimild til að landa þeim í Hafró-afla eða láta hluta af byggðakvótanum til þeirra og í þriðja lagi þá að það mundi tryggja þeim aðganginn að þessum heimildum. Það er aðalhugsunin. Ég held að þetta sé spor í rétta átt en það hefði þurft að útfæra þetta betur eins og svo margt annað. Það er allt skilið eftir í lausu lofti í reglugerðarfargani hjá ráðherranum og í raun og veru veit enginn hvernig þessu muni reiða af. Þegar þessir ágætu menn sem eru í forsvari fyrir þessi fyrirtæki spyrja núna, þrem vikum áður en þeir fá fyrstu gestina, eru engin svör til fyrir þá. Það eru engin svör til um hvernig þetta verður gert nákvæmlega. Það liggur ekkert fyrir um hverjir fá úthlutun og hverjir ekki og það er mjög bagalegt. Þess vegna hefði þetta þurft að klárast allt í einu.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka að mér finnst með ólíkindum að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skuli ekki hafa fallist á að taka þetta skötuselsákvæði út miðað við þær afleiðingar sem það hefur haft að eyðileggja sáttanefndina hjá sjálfum sér. Hins vegar eru önnur atriði í frumvarpinu, eins og ég fór ítarlega yfir við bæði 1. og 2. umr., sem ég lít á að séu jákvæð, spor í rétta átt og sem ég geri ekki stórar athugasemdir við, a.m.k. ekki persónulega. En það eru alveg sérkennileg vinnubrögð að menn þurfi að fórna svona stórum hagsmunum fyrir litla hagsmuni sem eru eingöngu eitthvert persónulegt flopp hæstv. ráðherra.