138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:02]
Horfa

Frsm. minni hluta sjútv.- og landbn. (Ásbjörn Óttarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var smekkleg spurning en þeir hagsmunir sem snerta mína útgerð eru aukning á línuívilnun því að ég geri út á línu. Það kom mjög vel og skýrt fram í máli mínu áðan að ég teldi — og var ekki mælt á móti því að hún yrði aukin. Ég get því upplýst það hér að ég er ekki að gæta minna eigin hagsmuna, hef aldrei gert og mun ekki gera.

Ég sagði, þegar ég var að lýsa ráðherranum þegar hann fór inn á fund hjá smábátafélaginu, að mér hefði fundist þessi línuívilnun vera nógu mikil, 16%, og benti á skekkjuna í slægingarstuðlinum. Ég talaði því á móti því eina sem hægt er að tengja við hagsmuni útgerðar minnar, ég var að tala á móti því þannig að því sé til haga haldið. Hún heppnaðist því kannski ekki alveg þessi gildra hjá hv. þingmanni, að reyna að leiða mig inn í það. Hann getur þá bara spilað ræðuna aftur og hlustað mjög vandlega á hana.

Ég geri enga athugasemd við að ráðherrann sé að flytja frumvörp, það má ekki skilja mig þannig. Ég er bara að benda á að í þessu frumvarpi, sem gengur alltaf undir skötuselsnafninu, er fullt af öðrum málum, geymsluréttur, frístundaveiðar, línuívilnun, karfi og svo mætti lengi telja, breytingar á ákvæðum um hitt og þetta, þetta eru um átta atriði ef ég man rétt. En það er einungis eitt sem menn segja pínulítið. Þess vegna spurði ég þeirrar eðlilegu spurningar: Fyrst þetta er svona lítið hlýtur það að vega jafnlítið á vogarskálinni hér, að það þurfi ekki að setja allt starfið í uppnám. Það er staðreyndin og við fljúgum ekkert frá henni.

Það hefði verið skynsamlegra að halda á þeim málum eins og ég benti á og talaði fyrir hér þegar ég fór yfir frumvarpið, um hluti sem ég var sammála. Það er margt gott í þessu frumvarpi. Ég er eingöngu að benda á þetta eina ákvæði sem er að setja allt upp í loft. Ég er (Forseti hringir.) talsmaður þess að reyna að ná sáttum í sjávarútvegi en ekki að búa til meiri óeiningu.