138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég bið hv. þingmann um að taka það ekki óstinnt upp þó að ég hafi spurt þessarar spurningar áðan, mér finnst eðlilegt að fá svör við því ef einhver möguleiki er á hagsmunatengslum. Ég trúi hv. þingmanni alveg fyllilega og þeim svörum sem hann setti fram. Ég ber þessa spurningu eingöngu fram í anda þess sem við viljum sjá gerast hér á þingi varðandi gagnsæi hlutanna. Og ég þakka honum fyrir góð svör hvað það varðar.

Ég ítrekaði það hér áðan að margsinnis var reynt að ná sáttum, samkomulagi um lendingu í þessu máli, margsinnis reynt að gera það. Það tókst ekki eingöngu vegna fyrirstöðu forustusveitar Landssambands íslenskra útvegsmanna (Gripið fram í: Rangt.) og ég get staðfest það hér sjálfur og get dregið mér vitni til þess ef með þarf.

Sem betur fer eru ekki allir innan þeirra góðu samtaka annars samstiga forustunni og við það höfum við orðið áþreifanlega varir sem störfum í þessum málum, bæði innan sáttanefndarinnar og sjávarútvegsnefndar að undanförnu þar sem (Forseti hringir.) fleiri og fleiri úr þeim hópi vilja reyna að ná sáttum um sjávarútveg.