138. löggjafarþing — 93. fundur,  16. mars 2010.

stjórn fiskveiða.

174. mál
[18:41]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sjaldan hafa jafnstór orð fallið um jafnlítið mál og það sem hér er á ferðinni. En það er ástæða fyrir því og hún er sú að ríkur meiri hluti íslensku þjóðarinnar vill gera grundvallarbreytingar í íslenskum sjávarútvegi og kaus til þess í síðustu alþingiskosningum. Það er ljóst að sérhagsmunagæsluöflin ætla að hafa fullan ófrið um þann ásetning þjóðarinnar og freista þess með öllum tiltækum ráðum að koma í veg fyrir að hér nái þjóðarvilji fram að ganga.

Það er alveg ljóst að engar málefnalegar ástæður eru fyrir sérhagsmunagæsluöfl til að neita að taka þátt í heildarendurskoðun á fiskveiðistjórnarkerfinu þrátt fyrir þau 600 tonn sem hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hyggst úthluta af skötusel, hvað þá að nokkurt tilefni sé fyrir Samtök atvinnulífsins til að hóta því að stöðugleikasáttmálinn sé í uppnámi vegna þeirra 600 tonna. Það er auðvitað harðdrægni, átakasækni og ófriðarhyggja af hálfu LÍÚ og Samtaka atvinnulífsins sem er algerlega langt út fyrir það sem hægt er að sætta sig við.

Hér hafa farið fram lýðræðislegar kosningar í landinu. Meirihlutastjórn hefur verið kosin til valda. Hún hefur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sem flutt hefur stjórnarfrumvarp um 600 tonna hagsmuni, og að stofnanir í samfélaginu sem vilja láta taka sig alvarlega (Gripið fram í: 2000 …) hóti á þeim grundvelli að segja sundur frið á vinnumarkaði og neita þátttöku í heildarendurskoðun í heilli atvinnugrein eru vinnubrögð í engu samræmi við tilefnið. Það bendir til þess að innan LÍÚ sé eindregin andstaða við þjóðarviljann um breytt eignarhald á auðlindinni, um afturköllun á einkavæðingunni á fiskinum í sjónum. Þau ætla að taka þann slag með öllum tiltækum ráðum. Ég segi við þá sporgöngumenn þessara afla í þinginu sem ásaka hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að segja sundur friðinn í málinu eða ríkisstjórn Íslands að þeir sem efna hér til átaka og stríðs eru þeir sem krefjast þess að viðhalda óbreyttu ástandi í þessum efnum í fullri andstöðu við ríkan meiri hluta íslensku þjóðarinnar. Þeir sem setja þær kröfur fram og krefjast þess að fallið verði frá lagabreytingum um þessi 600 tonn, sem eru fullkomlega í samræmi við vilja meiri hluta þjóðarinnar sem eindregið og margoft og ítrekað hefur komið fram og er í fullu samræmi við þær pólitísku áherslur sem kynntar voru í síðustu alþingiskosningum, ástunda ófriðarhyggju og ofbeldi og vilja ganga fram gegn lýðræðislegum vilja þjóðarinnar, lýðræðislegum meiri hluta á Alþingi og lýðræðislegu umboði sitjandi ríkisstjórnar.

Það er ekki ofbeldi eða ófriður að fylgja fram jafnríkum og -eindregnum þjóðarvilja og hér er á ferðinni. Hér er verið að gera það í býsna litlu, þessu litla skötuselsmáli, og ég held að sannarlega hafi verið misráðið af mönnum að taka slaginn af jafnmikilli óbilgirni hér um og LÍÚ hefur kosið að gera. Ég tek út af fyrir sig undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að ef menn bera gæfu til að setjast niður og ræða málin frá hinum ólíku hliðum og leita sátta eiga allir málsaðilar að hafa burði til að lenda málefnalegri og lýðræðislegri niðurstöðu úr slíku ferli.

Ef þeir sérhagsmunaaðilar sem hafa eignarhald á fiskinum í sjónum í andstöðu við ríkan meiri hluta íslensku þjóðarinnar telja að það sé einhver sérstök stríðsyfirlýsing við sig að sjávarútvegsráðherra leiti eftir umboði þingsins til að úthluta 600 tonnum með þessum hætti eru menn náttúrlega ekki að leita eftir málefnalegri umræðu, skoðanaskiptum, samráði og niðurstöðu. Menn verða að virða grundvallarstofnanir í lýðræðissamfélagi, grundvallarstofnanir eins og alþingiskosningar, löggjafarsamkomuna og ríkisstjórn Íslands. Menn geta ekki gefið þeim fyrirmæli með hótunum af því tagi sem gerst hefur í aðdraganda þessa máls.

Það er ákaflega leitt að búa við það sem þjóðkjörinn fulltrúi á Alþingi að þurfa að sæta slíku. Hér hlýtur að þurfa að fara fram málefnaleg umfjöllun um þær tillögur sem fyrir liggja og alþingismenn hljóta að þurfa að vega og meta þau rök sem hverju sinni koma fram með og á móti þeim tillögum sem fyrir liggja og yfirleitt er það svo í þeim málum sem liggja fyrir á Alþingi, eins og í málum í lífinu yfir höfuð, að um þau ríkja ólík sjónarmið. Þar getur ýmislegt mælt með og annað á móti og á grundvelli slíks mats hljóta þingmenn að eiga að taka ákvörðun hér og afstöðu til mála en ekki á þeim grundvelli að menn hóti óskyldum hlutum, að rjúfa samráðsferli sem hafið er, segja sig frá sáttmálum o.s.frv.

Ég held að í samfélagi okkar sé í þessu efni gerð nokkur krafa á okkur. Ég held að það sé ætlast til þess af okkur að við leitumst við að ræðast við með málefnalegum hætti um ólíkar skoðanir en látum reyna á samráð og komumst að niðurstöðum og virðum í þeim sjónarmið hvers annars. Mér finnst satt að segja að í þessu ferli hafi lítið farið fyrir því. Og mér finnst að andstæðingar þessa máls hafi farið fram með ótrúlega miklum ófriði af litlu tilefni og að ekki séu þeir tímar í íslensku samfélagi að minnihlutaofbeldi af því tagi sem reynt hefur verið að beita í þessu máli af sérhagsmunaöflum eigi við. Ég held að það eigi sannarlega ekki við og það sé ekki gott innlegg í það mikilvæga verkefni sem við eigum fyrir höndum sem er að endurskoða þetta kerfi í heild sinni með það að markmiði að reyna að brúa þá miklu gjá sem verið hefur í íslensku samfélagi, reyna að vinna úr því mikla ósætti um ráðstöfunina á auðlindinni sem hér hefur verið áratugum saman og menn þekkja, að reyna að komast að niðurstöðu sem allir málsaðilar geti nokkurn veginn unað við. En það er sannarlega ekki góð byrjun af hálfu þeirra sem halda um eignarhaldið á auðlindinni í andstöðu við ríkan þjóðarvilja þegar þeir taka jafnharðdrægan hagsmunaslag um jafnlítið mál og hér er á ferðinni, segja Alþingi fyrir verkum um hvaða lög megi setja í landinu og hver ekki og hóta Alþingi með öllum mögulegum hætti hvað gerist ef ekki er farið að fyrirskipunum þeirra. Ég held að þingmenn á Alþingi Íslendinga eigi að hugsa mjög alvarlega um þennan aðdraganda og málatilbúnað allan vegna þess að sannarlega þekkjum við þetta úr þeim átakastjórnmálum sem síðasti ræðumaður nefndi réttilega og hafa því miður einkennt okkur í miklu ríkari mæli en tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum. Ég held að ætlast sé til þess að menn gangi fram með öðrum hætti í þjóðmálaumræðum.

Ég ætla ekki að segja að aðeins sé við annan aðilann að sakast. Öll vitum við að þegar tveir deila er það sjaldnast einvörðungu annars sök. Það er kannski tilefni fyrir alla til að líta aðeins í eigin barm með það. En ég undirstrika að þau viðbrögð sem komið hafa við þessari litlu breytingu eru úr öllu lagi, enda ekki nema sjálfsagt að ríkissjóður Íslands njóti tekna af því að leigja út þær litlu heimildir sem hér er um að ræða, 600 tonn. Ég held að ríkissjóður Íslands megi að ósekju, og almenningur á Íslandi, njóta arðs af auðlindum sínum á þeim erfiðu tímum sem við nú lifum. Eftir því sem almenningur nýtur meiri arðs af auðlindinni í sjónum, þess minni skatta þarf sá sami almenningur að borga. Við vitum það, allir alþingismenn, að við höfum lagt býsna mikla skatta á almenning í landinu og það er ekki mikið svigrúm til að gera meira af því. Við eigum stór verkefni fram undan í ríkisfjármálum þannig að sannarlega er þörf á því fyrir ríkissjóð og þau stóru verkefni sem við eigum fram undan að það sé tekið á í þessum málum. Það er ekki nema sjálfsagt að þessi 600 tonn renni með þessum hætti til ríkissjóðs. Ég skil satt að segja ekki hvað hv. þingmenn hafa við það að athuga. Eru þeir á móti því að ríkissjóður njóti arðs af þessari auðlind? Eru þeir á móti því að almenningur njóti einhvers arðs af þessum veiðum? Eru þeir á móti því að búa til fleiri tekjustofna fyrir ríkissjóð sem getur létt skattbyrðar launafólks í landinu, venjulegs fólks sem á erfiðara með að láta enda ná saman? Eða hvaða sjónarmið eru þetta? Eru einhver málefnaleg sjónarmið gegn því að 120 kr. fyrir hvert kíló renni með þessum hætti í ríkissjóð? Ég hef ekki heyrt þau. Ég sé þau ekki í nefndaráliti minni hlutans.

Að öðru leyti má um frumvarpið segja að þar eru fjölmörg önnur atriði sem tekið er á. Við höfum farið ágætlega yfir þau í nefndarálitum, bæði við 2. umr. og hér við 3. umr. Hv. þm. Atli Gíslason hefur gert grein fyrir sjónarmiðum okkar þar og ég hef ekki verulegu við það að bæta, en ég hvet málsaðila alla til að yfirvega nokkuð með hvaða hætti þessi orðræða öll hefur farið fram, hvernig menn hafa gengið fram og hvort mikill minni hluti í tilteknu máli geti virkilega lýst því yfir að ef þjóðarvilji eigi að ná fram að ganga felist í því ófriður, kúgun eða íhlutun af einhverju tagi, það sé verið að segja í sundur sátt með því. Ég hélt satt að segja að því væri öfugt farið.